Franskir bændur hrópa „úlfur, úlfur“

Mótmælandi í úlfagervi, umkringdur sauðfé.
Mótmælandi í úlfagervi, umkringdur sauðfé. AFP

Franskir bændur fjölmenntu við Eiffel-turninn í dag, með sauðfé í eftirdragi, til að koma á framfæri gremju sinni vegna fjölda úlfaárása, sem færast í aukana. Vilja sumir meina að úlfarnir hafi verið „ofverndaðir“ af stjórnvöldum.

Um 300 sauðkindur me-uðu og bitu letilega gras við fætur turnsins, á meðan eigendur þeirra kölluðu eftir áætlun til að koma stöðva árásirnar.

„Í dag: bændur, á morgun: atvinnulausir,“ stóð á flaggi eins mótmælenda, en annar gekk um í úlfsgervi, með lamb undir annarri hendinni.

Bændurnir stóðu ekki einir í skugga stálferlíkisins; á staðinn voru ennig mættir dýraverndunarsinnar sem kröfðust þess að úlfurinn nyti áfram verndar.

Mótmælendurnir munu funda með landbúnaðarráðherranum Stephane Le Foll í dag, og hyggjast taka eitthvað af sauðfénu með sér. „Við viljum sýna stjórnvöldum hversu fáránlegur úlfurinn er. Og þar sem við getum ekki lengur verndað hjörðina okkar, ætlum við að biðja stjórnvöld um það,“ sagði Serge Preveraud, forseti franska Sauðkindarsambandsins.

Bændurnir vilja fá leyfi til að drepa fleiri úlfa en stjórnvöld hafa heimilað. Útgefinn kvóti fyrir árið 2014-2015 er 24 dýr.

Miklar veiðar á úlfum í Frakklandi á síðustu öld, leiddu til þess að þeim var nærri útrýmt í kringum 1930, en sóttu aftur inn í landið frá Ítalíu rétt fyrir aldamótin síðustu. Þeir njóta nú sérstakrar verndar og telja um 300.

Samkvæmt opinberum tölum höfðu 4.800 úlfaárásir, mestmegnis á sauðfé, verið tilkynntar í ágúst sl.; um þúsund fleiri en allt árið 2013. Bændur segja árásirnar valda mikilli streitu hjá sauðkindinni og fósturlátum fari fjölgandi.

Umhverfisráðherra Frakklands, Segolene Royal, viðurkenndi fyrr á þessu ári að árásirnar væru orðnar of tíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert