Hvetja fólk til að sniðganga „svartan föstudag“

Fjölmargir þekktir Bandaríkjamenn hvetja landsmenn til þess að sniðganga verslanir á morgun, á svo nefndum „svörtum föstudegi“, sem er stærsti verslunardagur ársins í Bandaríkjunum. Ástæðan er ákvörðun kviðdóms um að lögreglumaður sem skaut óvopnaðan átján ára blökkupilt til bana í ágúst verði ekki sóttur til saka. 

Meðal þeirra sem hafa skrifað undir áskorun á netinu varðandi kauplausan dag á morgun er hip hop-listamaðurinn Russell Simmons en áskorunina er að finna á Twitter undir kassamerkinu  #NotOneDime og #BlackoutBlackFriday.

„Við höfum máttinn til þess að breyta þjóð okkar. Stöndum saman með @UnitedBlackout á #BlackoutBlackFriday,“ skrifar ein þeirra sem tekur þátt í átakinu, leikkonan Kat Graham, sem leikur í sjónvarpsþáttaröðinni The Vampire Diaries.

Í dag halda Bandaríkjamenn þakkargjörðarhátíðina hátíðlega en á morgun þyrpast þeir í búðir til þess að gera góð kaup fyrir jólin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert