20.000 horfið sporlaust

Nemendur við háskólann í El Salvador mótmæla vegna hvarfs stúdentanna …
Nemendur við háskólann í El Salvador mótmæla vegna hvarfs stúdentanna 26. september sl. AFP

Þau fundu fyrstu gröfina í huisache-kjarri í hlíðarbrekku fyrir utan bæinn Iguala. Um tylft manna og kvenna fylgdust með því þegar eldri maður mundaði hakann í heitri miðdagssólinni. Sumir buðu fram ráðleggingar um hvar og hvernig ætti að grafa; flestir horfðu á í þögn.

Þegar lærleggur af manni kom upp úr moldinni snéri Mayra Vergara sér við og brast í grát. Hún hafði vonað að í dag myndi hún finna vísbendingu um örlög bróður síns, Tomás; leigubílstjóra sem var rænt í júlí 2012 og sást aldrei aftur. En hver svo sem lá í þessari gröf átti meira skilið.

„Jafnvel þótt þetta sé ekki bróðir minn, þá er þetta samt manneskja. Manneskja sem verðskuldaði almennilega greftrun,“ sagði Vergara við Guardian, reið og hrygg á svipinn. „Og spurningin er hvenær? Hvenær ætla þeir að gera eitthvað fyrir okkur?“

Hvarf, og líklega morð, 43 kennaranema sem voru handteknir af lögreglu í Iguala fyrir um tveimur mánuðum hefur beint kastljósinu að þeim hroðaverkum sem framin eru í tengslum við fíkniefnaiðnaðinn í Mexíkó, og þá spillingu sem lætur þau ótalin.

Alda mótmæla, sem fór af stað í kjölfar hvarfs stúdentanna, hefur valdið því að forseti landsins, Enrique Peña Nieto, er nú undir miklum pólitískum þrýstingi.

En atvikið hefur líka vakið athygli á þekktu leyndarmáli Mexíkó; í fíkniefnadrifnu ofbeldi síðastliðinna ára hafa um 20.000 manns horfið sporlaust.

Ættingjarnir óttast hefnd

Ættingjar horfinna hafa að mestu haldið sig til hlés, af ótta við hefnd. Nú hafa hins vegar margir fundið styrk til þess að fordæma hryðjuverk glæpahópanna, sem eru oft framin undir hlífiskyldi yfirvalda.

„Það er kominn tími til þess að við segjum skilið við óttann og notfærum okkur tækifæri augnabliksins til að segja það sem við þurfum að segja, svo að allir viti að þetta snýst ekki bara um þessa 43,“ segir Claro Raúl Canaán, sem freistar þess að komast að því hvar varð um syni hans tvo sem hurfu 2008.

„Í þessum hlíðum eru líkega hundruðir grafa. Í Mexíkó, þúsundir.“

Á þeim dögum og vikum sem liðu eftir hvarf kennaranemanna, fundu rannsakendur fjöldagrafir nokkrum kílómetrum frá fátækum úthverfum Iguala. Íbúar sögðu blaðamönnum frá því að hafa séð byssumenn, og bifreiðar staðaryfirvalda, á leið upp slóða sem leiða hvergi. Þeir mundu eftir öskrum, sem stundum rufu næturþögnina.

Þrjátíu og átta lík hafa verið grafin upp og fjarlægð, en DNA-rannsóknir hafa leitt í ljós að ekkert þeirra tilheyrir hópi námsmannanna sem saknað er. Kennsl hafa verið borin á fjögur, þeirra á meðal úganskan prest, sem sögur segja að hafi verði myrtur eftir að hann neitaði að skíra barn ónefnds fíkniefnabaróns.

Leitin að stúdentunum beinist nú annað, en tvær síðustu vikur hafa skyldmenni „hinna sem hafa horfið“ skipulagt sig. Nú þegar hefur upplýsingum verið safnað um
200 mál, en gert er ráð fyrir að fleiri muni gefa sig fram áður en yfir líkur.

„Það er svo erfitt að halda svona áfram, án einhvers konar tákns sem gefur okkur grið frá sársaukanum og biðinni,“ segir Reina Marcelo, en eiginmaður hennar og sonur voru numdir á brott á bílasölu í eigu fjölskyldunnar í maí 2011. „Ég er ennþá óttaslegin, en minna núna þegar við erum mörg.“

Hafa enga trú á yfirvöldum

Það var sameiginleg lífsreynsla sem gerði það að verkum að 50 ættingjar horfinna óku upp í hlíðarnar einn nýliðinn morgun, og hlýddu leiðbeiningum bónda í nágrenninu sem sagði að svæðið hefði „lyktað mjög illa“ fyrir um það bil ári síðan. Þegar þeir komu á staðinn dreifðu þeir sér meðal þyrnóttra trjánna og leituðu eftir verksumerkjum um greftranir. Á eftir fylgdu köll eftir skóflum og hökum. Búið var að smíða lítil flögg til að merkja þá staði þar sem bein fannst eða tönn.

„Við erum að brjóta lögin en við verðum að finna leið til að fá stjórnvöld til að gera eitthvað,“ sagði Miguel Angel Jiménez, meðlimur sjálfskipaðs löggæsluhóps, sem vill meina að leysa megi öryggiskrísuna í Mexíkó með sveitum vopnaðra borgara og aukinni sjálfstjórn héraða landsins.

Vantraust á yfirvöldum er undirrót áætlana um að smíða DNA-gagnagrunn ættingja þeirra sem hafa horfið í samráði við nýstofnuð samtök, Citizen Forensic Science, sem er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að yfirvöld ljúki málum með því einfaldlega að afhenda röngum skyldmennum rangar líkamsleifar.

Á meðan sumir leituðu innan um trén og aðrir grófu ofan í jörðina, lýstu aðrir ættingjar í hópnum árum af árangurslausum heimsóknum á opinberar skrifstofur, sem urðu til þess að þeir upplifðu að embættismenn gerðu lítið úr sársauka þeirra.

Aðrir sögðust aldrei hafa lagt fram formlega tilkynningu. Sú staðreynd að staðaryfirvöld væru í ráðum með glæpagengjum, hefði verið á almennu vitorði löngu áður en lögreglan í Iguala réðist gegn stúdentunum og afhenti þá Guerreros Unidos fíkniefnagenginu, að því er sagan segir.

Faðir Franciscu Soñanez hvarf í ágúst sl. þegar hann var að bera út blöðin. Tveir sona hennar voru teknir af heimili fjölskyldunnar mánuði síðar. Hún gerir ráð fyrir að það hafi verið í hefndarskyni fyrir að tilkynna fyrra hvarfið. Hún leitaði ekki til yfirvalda í seinna skiptið.

Í sumum tilfellum virðast samantekin ráð yfirvalda og glæpahópanna jafn augljós og í tilviki stúdentanna; síðast sást til sona Canaán nærri varðstöð lögreglu, og barnabarn Maríu Luisu Bastián hvarf á meðan hann sat í fangelsi borgarinnar.

Laura García vissi að hermenn hefðu neytt bróður hennar, Francis Alejandro, og fimm aðra upp í bifreið fyrir utan diskótek fjölskyldunnar 2010, vegna mynda úr öryggismyndavél sem einhver setti undir hurðina hjá henni. Hermennirnir voru úr herdeild staðsettri í Iguala; sömu herdeild og stóð aðgerðarlaus hjá þegar lögregla réðist gegn námsmönnunum 26. september sl.

Nokkur alþjóðlega mannréttindasamtök vöktu athygli á máli García, en ekkert hefur áunnist. „Ef þeir hefðu veitt okkur athygli fyrr hefði þetta ekki gerst,“ segir hún. „Allt þetta mál með stúdentana; þetta er eins og að horfa aftur á sömu myndina. Andlit foreldra þeirra eru alveg eins og andlit móður minnar.“

Margir bíða enn og vona

García hefur gefið upp vonina um að bróðir hennar sé á lífi en mörg skyldmenni finna tregablandna huggun í þeirri hugmynd að ástvinir þeirra hafi verið neyddir til að ganga til liðs við glæpagengin. Sú hugmynd hefur m.a. hreiðrað um sig meðal foreldra námsmannanna týndu.

Í þeirri trú hafa þeir beðið fyrir utan líkhúsið eftir að hafa heyrt fréttir af skotárásum og lagt leið sína inn á hættulega valmúaakra, þar sem þrælavinna ku fara fram.

Öll viðleitni í leitinni að „hinum horfnu“ beinist nú að því að fá stjórnvöld til að ráðast í grandskoðun á gröfunum í hlíðunum nærri Iguala. Leiðangur ættingjanna leiddi í ljós sex staði þar sem bein voru grafin og á einum stað fannst fatnaður. Þeir héldu heim þegar sól tók að hníga en alríkislögreglan innsiglaði svæðin.

„Við viljum að minnsta kosti getað grafið þau á viðeigandi hátt,“ sagði Vergara eftir að hafa séð fyrsta lærbeinið. „Á þessu augnabliki höfum við ekki einu sinni stað til að fara á og gráta.“

Frétt Guardian

Stúdentar við Universidad Mayor de San Andres de La Paz …
Stúdentar við Universidad Mayor de San Andres de La Paz (UMSA) í Bólivíu mótmæla hvarfi stúdentanna í Iguala. AFP
Nemendur í Ayotzinapa-skóla í Guadalajara efndu til mótmæla í síðustu …
Nemendur í Ayotzinapa-skóla í Guadalajara efndu til mótmæla í síðustu viku. AFP
Óeirðarlögregla í Mexíkó-borg í viðbragðsstöðu í mótmælum 20. nóvember sl.
Óeirðarlögregla í Mexíkó-borg í viðbragðsstöðu í mótmælum 20. nóvember sl. AFP
43 námsmenn hurfu og líkur eru á að þeir hafi …
43 námsmenn hurfu og líkur eru á að þeir hafi verið myrtir. AFP
Mótmælendur í Mexíkó-borg gera sig líklega til að ráðast gegn …
Mótmælendur í Mexíkó-borg gera sig líklega til að ráðast gegn lögreglu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert