Ákærður fyrir að hafa nauðgað tugum kvenna

Fyrrverandi yfirmaður í her Bosníu Króata var í dag ákærður fyrir stríðsglæpi. Þar á meðal fyrir að hafa nauðgað fleiri tugum serbneskra kvenfanga í Bosníustríðinu.

Mladen Kurdija er ákærður fyrir að hafa framið stríðsglæpi, bæði einn og ásamt fleirum úr her Bosníu Króata í stríðinu á árunum 1992-1995. Ríkissaksóknari Bosníu segir að brotin hafi beinst gegn konum sem var haldið ólöglega af herlögreglunni (HVO).

Kurdija var yfirmaður HVO herlögreglunnar í bænum Bosanski Brod þar sem fólk af serbneskum uppruna var tekið höndum og haldið á lögreglustöðvum og á íþróttaleikvangi bæjarins.

Fjölmörgum konum var nauðgað og sumum ítrekað. Þær voru niðurlægðar á skeliflegan hátt fyrir framan aðra fanga, segir saksóknari meðal annars í ákærunni. „Einni konu var nauðgað fyrir framan eiginmanninn,“ segir saksóknari.

Fangarnir, bæði karlar og konur, voru pyntaðir daglega og nokkrir tugir þeirra voru barðir til bana eða hurfu sporlaust. 

Kurdija tók bæði beinan og óbeinan þátt í pyntingum og nauðgunum fanga en hann er einnig ákærður fyrir að hafa ekki gert neitt til þess að verja fangana gagnvart ofbeldinu sem þeir urðu fyrir. Kurdija, sem er 56 ára gamall, býr í nágrannalandi Bosníu, Króatíu. Hann hefur verið yfirheyrður þar en króatísk yfirvöld eru í samstarfi við bosnísk yfirvöld við rannsókn málsins.

Talið er að 20 þúsund konur, flestar múslimar, hafi verið nauðgað í Bosníustríðinu en ofbeldið gagnvart þeim hefur fengið litla athygli hjá þeim sem rannsakað hafa stríðsglæpi í Bosníustríðinu. Alls hafa 60 manns verið dæmdir fyrir stríðsglæpi í Bosníu sem og fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag. Um 100 þúsund manns létust í stríðinu sem stóð yfir í þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert