Bergbrot eins hættulegt og asbest

Umhverfissinnar mótmæla bergbroti á Englandi.
Umhverfissinnar mótmæla bergbroti á Englandi. Mynd/AFP

Aðalvísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar varar við því að bergbrot (e. fracking) gæti verið eins hættulegt og tóbak og abest. Hann segir jafnframt að menn hafi verið of fljótir á sér að tileinka sér þessa nýju tækni sem gæti síðan reynst hafa alvarleg áhrif á náttúruna og heilsu fólks.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Mark Walport, aðalvísindaráðgjafa ríkisstjórnar Davids Cameron. Þar segir að sagan sé full af dæmum um að menn hafi verið of bráðir að taka upp tækninýjungar sem hafi síðar reynst hættulegar.

Bergbrot fer þannig fram að vatni, sandi og ýmsum efnum er dælt ofan í leirsteinslög með miklum þrýstingi. Þannig er bergið í kringum borleiðslurnar sprengt og gas sem fast er inni í berginu losnar. Ríkisstjórn Cameron hefur lagt mikla áherslu á gasvinnslu með þessari aðferð.

Áhyggjur hafa þó vaknað um að gasið sem losnar geti mengað drykkjarvatn fólks, aukið umferð stórvirkra vinnuvéla á vinnslusvæðunum, tekið fjármagn frá þróun endurnýjanlegra orkugjafa og hraðað hnattrænni hlýnun.

Í skýrslu Walport er bergbroti þannig líkt við eiturefnið asbest, tóbak og svefnlyfið thalidomide sem olli fósturdauða hjá konum sem það notuðu.

„Í öllum þessum tilfellum og öðrum leiddi það hversu seint menn áttuðu sig á skaðlegum áhrifum ekki aðeins til alvarlegra umhverfis- og heilsuvandamála heldur til gríðarlegs kostnaðar og verri samkeppnisstöðu fyrirtækja og hagkerfa sem þráuðust við á rangri leið,“ segir í skýrslunni.

Frétt The Guardian af skýrslu aðalvísindaráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert