Fella niður mál gegn Mubarak

Hosni Mubarak í dómsal í Kaíró árið 2012.
Hosni Mubarak í dómsal í Kaíró árið 2012. STR

Dómstóll í Egyptalandi hefur ákveðið að vísa frá máli gegn Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta landsins, en hann var sakaður um að hafa lagt á ráðin um að myrða mótmælendur á meðan á uppreisninni gegn honum stóð árið 2011. Yfirmenn öryggissveita hans voru allir sýknaðir af sömu ákærum.

Dómarinn Mahmud Kamel al-Rashidi komst að þeirri niðurstöðu að yfirmennirnir, þar á meðal Habib al-Adly, innanríkisráðherra í stjórn Mubarak, væru „saklausir“. Hann tók það hins vegar fram að frávísunin leysti forsetann fyrrverandi ekki undan ábyrgð á „spillingu“ og „veiklyndi“ undir lok valdatíðar sinnar.

Á bilinu áttahundrað til níuhundrað manns voru drepnir í uppreisninni gegn Mubarak sem stóð í átján daga. Ákæran nú náði aðeins til drápa á nafngreindum 239 mótmælendum.

Mubarak var jafnframt sýknaður af ákærum um spillingu. Hann verður þó áfram í fangelsi þar sem að hann afplánar þegar þriggja ára dóm vegna annarra ákæra um spillingu í valdatíð sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert