Fimmtán handteknir í Ferguson

Lögreglan handtók 15 manns í gær í bænum Ferguson í útjaðri borgarinnar St Louis í Missouri-ríki í Bandaríkjunum en mikil mótmæli hafa geisað þar í kjölfar þess að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu í byrjun vikunnar að ekki bæri að ákæra lögreglumann sem skaut ungan blökkumann í bænum til bana í ágúst.

Fram kemur í frétt AFP að lögreglan hafi fyrirskipað mótmælendum að yfirgefa götur Ferguson í gær. Sumir þeirra hafi hunsað þær viðvaranir og voru í kjölfarið teknir höndum. Fram kom á Twitter-síðu lögreglunnar í St Louis að 15 manns hafi verið handteknir. Einn þeirra yrði ákærður fyrir að ráðast á lögreglumann. Mótmælin hafi að öðru leyti farið friðsamlega fram.

Mótmælt hefur verið víðar um Bandaríkin vegna málsins og hafa mótmælin jafnvel teygt sig til London höfuðborgar Bretlands þar sem meðal annars hefur verið mótmælt fyrir framan bandaríska sendiráðið í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert