Hafa ekki borið kennsl á níu manns

AFP

Sex líkkistur með líkamsleifum níu einstaklinga sem fórust með farþegaþotunni MH17, sem var skotin niður yfir Úkraínu í sumar, komu til Hollands í gær. Þær voru fluttar með C-130 flutningaflugvél hollenska flughersins sem lenti á flugvellinum í Eindhoven.

Fram kemur að Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hafi verið viðstaddur athöfn vegna komu líkkistanna en þær bætast við þær kistur sem þegar hafa verið fluttar til landsins en mikill fjöldi Hollendinga lét lífið þegar þotan var skotin niður. Líkamsleifarnar voru síðan fluttar á rannsóknarstöð þar sem vinna fer fram við að bera kennsl á þær.

Farþegaþotan MH17 í eigu Malaysia Airlines var skotin niður 17. júlí í sumar yfir svæði sem laut stjórn aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Samtalst voru 298 manns um borð og létu þeir allir lífið. Þar af voru 193 hollenskir ríkisborgarar. Hollenskir sérfræðingar hafa þegar borið kennsl á 289 þeirra sem létust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert