27 fórust á Filippseyjum

Óveðrið sem hefur geisað á Filippseyjum undanfarna daga kostaði 27 lífið og er eyðileggingin gríðarleg víða, einkum við ströndina. Höfuðborg landsins, Manila, slapp hins vegar furðuvel en Hagupit er öflugasta óveðrið sem hefur gengið yfir Filippseyjar í ár.

Hagupit fór yfir Samar-eyju á laugardag og mældist vindhraðinn þá 59 metrar á sekúndu en eftir það hefur smátt og smátt dregið úr styrk fellibylsins og í gær var hann ekki lengur skráður sem fellibylur heldur stormur. Óveðrið gekk yfir Manila í gærkvöldi en minnti lítið á það sem var um helgina. 

Þegar ofurfellibylurinn Haiyan gekk yfir Filippseyjar í fyrra létust 7.350 manns en óveðrið þá er sennilega eitt það versta sem um getur.

Þegar vitað var að von væri á Hagupit nú voru 1,7 milljónir íbúa beðnir að yfirgefa heimili sín og leita skjóls í neyðarskýlum. Er talið að það hafi haft mikið að segja og bjargað mörgum mannslífum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert