Tæki 10-15 ár að byggja upp varnir

Frá árslokum 2015 munu sænsk stjórnvöld geta kallað út þúsundir …
Frá árslokum 2015 munu sænsk stjórnvöld geta kallað út þúsundir varaliða. AFP

Svíar hafa gripið til þess ráðs að endurvekja möguleikann á því að kalla til varaliða ef til átaka kemur. Landið, sem hefur lýst yfir hlutleysi og stendur utan NATO, en varnarmálaráðherrann Peter Hultqvist sagði í vikunni að í ljósi tilburða Rússa, innlimunar Krímskaga og Úkraínudeilunnar, hefði þótt nauðsynlegt að grípa til fyrrnefndrar ákvörðunar.

Þetta þýðir að stjórnvöld í Svíþjóð geta skikkað 7.500 Svía, sem fengu herþjálfun á árunum 2004-2011, til að taka þátt í heræfingum frá árslokum 2015.

Stefan Hedlund, sérfræðingur við rannsóknarmiðstöð Uppsala-háskóla í málum er varða Rússland og Evrasíu, segir þekkt að Rússar beiti olnbogunum á nágranna sína, og það gætu þeir gert í auknum mæli gagnvart Svíþjóð, þar sem landið sé án varna.

Um það bil tveir mánuðir eru liðnir frá því að Svíar eltust árangurslaust við kafbát við eyjarnar utan við Stokkhólm. Engar upplýsingar voru gefnar upp um uppruna kafbátsins en því hefur víða verði haldið fram að hann hafi verið rússneskur.

Hedlund segir mögulegt að Svíar kjósi að ganga í NATO og byggja upp varnir sínar. „En það er alveg jafn líklegt að ekkert af þessu gerist,“ segir hann.

Varnarmálaráðherra Póllands, Tomasz Siemoniak, varaði við því í gær að síðustu daga hefðu orðið vart við mikla hreyfingu á rússneska heraflanum á Eystrasaltssvæðinu. Þá sagði kollegi hans í Eistlandi í dag að rússnesk flugvél hefði flogið inn í flughelgi landsins.

Hedlund segir að hvað sem stjórmálamenn ákveði að gera í dag, muni það taka Svía 10-15 ár til að koma vörnum sínum aftur í gott horf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert