Komist að umdeildu samkomulagi

Fundarmenn voru ánægðir með að samkomulag náðist eftir framlengdar viðræður, …
Fundarmenn voru ánægðir með að samkomulag náðist eftir framlengdar viðræður, en umhverfisverndarsamtök segja skjalið máttlaust. AFP

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa komist að samkomulagi um hvernig þau ætla að takast á við loftslagsbreytingar. Viðræður á nýafstaðinni loftslagsráðstefnu í Perú drógust á langinn vegna ósættis milli ríkari og fátækari ríkja um minnkun kolefnislosunar, en umhverfisverndarsamtök hafa gagnrýnt samkomulagið og kalla það gagnslausa málamiðlun.

Samkvæmt blaðamanni BBC í Lima, Matt McGrath, fékk ekkert ríkjanna 194 allt sem það vildi, en allir fengu eitthvað. Að sögn McGrath var fulltrúum ríkjanna létt þegar samkomulag lá fyrir, eftir 48 stunda maraþonlotu.

Umhverfismálaráðherra Perú, Manuel Pulgar-Vidal, sagði í samtali við blaðamenn að texti samkomulagsins væri ófullkominn, en samkomulagið útlistaði afstöðu aðila.

Samkomulagið var samþykkt aðeins klukkustundum eftir að öðrum texta hafði verið hafnað af þróunarríkjum, sem hafa sakað efnaðri ríki um að koma sér undan því að axla ábyrgð á hlýnun jarðar og gjalda fyrir þau áhrif sem hún hefur haft.

Í lokatextanum ku koma fram að ríkin hafi sameiginlegar en ólíkar skyldur.

„Við fengum það sem við vildum,“ segir umhverfisráðherra Indlands, Prakash Javedekar, en samkomulagið endurspeglaði það viðhorf að ríkari þjóðir þyrftu að vera í forystu hvað varðar að draga úr kolefnislosun.

Þá fæli það í sér loforð til fátækari ríkja um að áætlanir yrðu gerðar um fjárhagslega aðstoð þeim til handa, til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Harðlega gagnrýnt af umhverfisverndarsamtökum

Tungumálið varðandi skuldbindingar ríkjanna er hins vegar veikara en áður, þar sem nú stendur að ríki „geti“, í stað „skuli“ leggja fram upplýsingar um hvernig þau hyggjast uppfylla skuldbindingar sínar.

Samkomulagið kallar eftir því að komist verði að metnaðarfullu samkomulagi á næsta ári sem endurspeglar skyldur og getu hvers ríkis, að þróunarríki fái fjárhagsaðstoð til að takast á við loftslagsbreytingar, að þau ríki „sem verða tilbúin til þess“ gefi fyrirheit um aðgerðir á fyrsta fjórðungi næsta árs, að ríki setji sér markmið umfram þau sem þegar hafa verið sett, og að stofnun SÞ um loftslagsmál sendi frá sér skýrslu í nóvember á næsta ári um þær aðgerðir sem ríkin hyggjast ráðast í.

Umhverfisverndarsamtök hafa gagnrýnt samkomulagið harðlega og segja þær tillögur sem lagðar eru fram langt frá því að vera nógu drastískar. Sam Smith, yfirmaður loftslagsmála hjá World Wide Fund for Nature, segir að dregið hafi úr texta samkomulagins í hverju skrefi og eins og hann standi sé hann sannarlega máttlaus.

Aðgerðasinnar mótmæla á hliðarlínum loftslagsráðstefnunnar í Lima.
Aðgerðasinnar mótmæla á hliðarlínum loftslagsráðstefnunnar í Lima. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert