Tekin úr sölu vegna bandstrika

AFP

Breskur rithöfundur fékk þau skilaboð frá netversluninni Amazon í byrjun mánaðarins að rafbók sem hann samdi og verið hafði í sölu á Amazon frá því í mars á síðasta ári hefði verið tekin af söluskrá. Skýringin var sú að of mörg bandstrik væri að finna í textanum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að bókin High Moor 2: Moonstruck eftir Graeme Reynolds hefði þá fengið rúmlega eitt hundrað jákvæðar umsagnir á Amazon. Netverslunin sagði að svo mikil notkun á bandstrikum hefði áhrif á það hversu lesvæn bókin væri. Í svari til Amazon benti Reynolds á að það væri viðurkennd aðferð í ensku ritmáli að nota bandstrik á milli orða og sendi með leiðbeiningar um slíka notkun.

Hins vegar virtist Amazon ekki hafa skopskyn fyrir þessu útspili. Svar netverslunarinnar var á þá leið að ítreka að bókin hefði verið tekin af söluskrá og Reynolds hefði 40 daga til þess að fjarlægja bandstrikin. Að öðrum kosti yrði bókin fjarlægð af söluskránni með varanlegum hætti.

Reynolds skrifaði á bloggsíðuna sína í kjölfarið að þessi samskipti væru mjög fyndin fyrir utan þá staðreynd að málið væri að kosta hann fjármuni þar sem í það stefndi að ein af mest seldu bókunum hans yrði ekki til sölu á Amazon í jólavertíðinni.

Velti hann ennfremur fyrir sér hvað kæmi næst. Hvort bannað yrði að nota orð sem væru meira en tvö atkvæði eða hvort semíkomman væri í hættu. Bókin var færð aftur á söluskrá Amazon í gær. Að því er virðist eftir að bloggskrif Reynolds um málið vöktu mikla athygli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert