Frönskufýlan að drepa hann

Fyrrverandi forstjóri franska snyrtivörufyrirtækisins L'Oreal, Lindsay Owen-Jones, er afar ósáttur við nágranna sína í bænum Albertville en hann er ósáttur við steikingarbrælu af frönskum kartöflum sem berst inn í lúxusíbúð hans í skíðabænum.

Það er óhætt að segja að ólíkir menningarheimar hafi mæst í réttarsalnum í franska skíðabænum í gær en Owen-Jones hefur höfðað mál gegn eiganda skyndibitastaðar sem hann sakar um að bera ábyrgð á steikingarbrælu í íbúð hans.

Milljarðamæringurinn var ekki sjálfur viðstaddur þingfestingu málsins í gær en lögmaður hans og fjórir nágrannar hans hafa farið fram á að skyndibitastaðnum La Cabane verði lokað vegna þess ónæðis og óþefs sem leggur um nágrennið þegar franskar kartöflur eru steiktar þar.

Lindsay Owen-Jones er 68 ára Breti en hann á íbúð á besta stað í skíðabænum og hann og nágrannar hans,  sem einnig eru auðmenn, segja að brælan af steikingarfitunni leiti upp á svalir þeirra og berist þaðan inn í íbúðirnar.

Eigandi skyndibitastaðarins, Valerie Maertens, 39 ára, sagði í gær við fréttamenn að Owen-Jones komi aðeins til Val d'Isere í þrjá daga þrisvar á ári. Á sama tíma bjóði hún fólk velkomið á staðinn á hverjum degi og veiti bæði starfsmönnum bæjarins og öðrum bæjarbúum þjónustu sína.

Dómarinn mun kveða upp dóm sinn í málinu þann 24. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert