Páfinn lék lykilhlutverk

Frans páfi lék lykilhlutverk í því að sögulegar sættir náðust á milli bandarískra og kúbanskra stjórnvalda. Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa hrósað páfa í hástert.

Páfagarður í Róm sendi ríkisstjórn Bandaríkjanna og Kúbu hlýjar kveðjur og óskaði þeim til hamingju með þennan sögulega áfanga, en samskipti ríkjanna hafa verið allt annað en góð undanfarna hálfa öld. Frans páfi sagði mikilvægt að ríkin tækju aftur upp stjórnmálasamband því það væri gert í þágu almennings. 

Í yfirlýsingu Páfagarðs segir ennfremur, að Frans Páfi hafi sent Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Raul Castro, forseta Kúbu, bréf þar sem hann bauð sendifulltrúum ríkjanna til að funda á skrifstofu sinni í október sl. í þeim tilgangi að koma á samræðu, en það varð til þess að niðurstaða fékkst sem bæði ríkin gátu unað við. 

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, sagði að ennfremur að kanadísk stjórnvöld hefðu einnig átt þátt í að miðla málum, en Kanadamenn slitu aldrei stjórnmálasambandi við Kúbu líkt og Bandaríkin gerðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert