Reynt að stöðva sænska níðinga

Taíland er vinsæll áfangastaður
Taíland er vinsæll áfangastaður AFP

Sænska lögreglan hefur sett vef, Resekurage.se, á laggirnar þar sem reynt er að leita uppi sænska barnaníðinga sem fara í kynlífsferðir til útlanda.

Þar eru Svíar sem ferðast á staði eins og Taíland, Kambódíu og Sri Lanka,  allt staðir sem eru þekktir áfangastaðir útlendra barnaníðinga, beðnir um að tilkynna um landa sína sem hefða sér grunsamlega.

Á hverju ári ferðast hundruð þúsunda Svía til annarra landa. Í einhverjum tilvikum sjá þeir börn beitt kynferðislegu ofbeldi og seld barnaníðingum sem eru einnig á ferðalagi. Svíar eru þar ekki undanskildir, segir á vefnum. 

Vefurinn er hluti af stærri herferð sænskra stjórnvalda, lögreglu og barnaverndarsamtaka sem hafa frá árinu 2005 unnið markvisst að því að upplýsa um ferðalög barnaníðinga sem fara til útlanda að kaupa kynlíf af börnum sem hafa verið seld í kynlífsánauð. Slíkir barnaníðingar eiga yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi við komuna heim til Svíþjóðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er talið að um tvær milljónir barna vinni sem kynlífsþrælar í heiminum og að ljóst sé að Svíar eru meðal þeirra níðinga sem kaupa sér þjónustu slíkra þræla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert