Sat á símaskrá í rafmagnsstólnum

Rafmagnsstóll
Rafmagnsstóll Wikipedia/Lee Honeycutt

George Stinney Jr., var aðeins fjórtán ára þegar hann var tekinn af lífi í Suður Karólínu í Bandaríkjunum árið 1944. Hann var svo lítill að hann þurfti að sitja ofan á símaskrá í rafmagnsstólnum. Dómarinn Carmen Mullins hefur nú ógilt dóminn og ákveðið að Stinney hafi verið saklaus.

Samkvæmt frétt NBC var tilkynnt um ákvörðun dómarans í morgun. Stinney, sem var þeldökkur, hafði verið dæmdur fyrir að berja tvær ungar hvítar stúlkur til dauða í smábænum Alcolu árið 1944.

Mannréttindalögfræðingar hafa reynt í mörg ár að fá yfirvöld til að taka málið upp að nýju. Héldu þeir því fram að játning Stinney hafi verið þvinguð. Þegar hann var handtekinn var Stinney aðeins 43 kíló en hann átti að hafa barið stúlkurnar, sem voru ellefu og átta ára gamlar, til dauða með barefli. 

Árið 2009, í eiðsvarinni yfirlýsingu, sagði systir Stinney að hann hafi verið með henni daginn sem stúlkurnar voru myrtar og hefði því ekki getað borið á byrgð á morðunum.

Stinney var tekinn af lífi tæpum þremur mánuðum eftir að stúlkurnar létust. Réttarhöld yfir honum stóðu yfir í þrjá tíma og kviðdómur, sem samanstóð af tólf hvítum karlmönnum, var í aðeins tíu mínútur að ákveða að hann væri sekur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert