Boko Haram rændu 185 manns

Skæruliðar Boko Haram í myndbandi. Leiðtogi þeirra er fyrir miðju.
Skæruliðar Boko Haram í myndbandi. Leiðtogi þeirra er fyrir miðju. AFP

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram rændu að minnsta kosti 185 manns, þar á meðal konum og börnum á sunnudaginn í norðaustur Nígeríu. Einnig létust 32 í árásinni sem var við bæinn Gumsuri.  

Vakti það heimsathygli í apríl þegar að sömu samtök rændu rúmlega tvö hundruð skólastúlkum í bænum Chibok. Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, sem sækist eftir endurkjöri 14. febrúar næstkomandi hét því að árásin í Chibok myndi marka upphaf endalokana þegar það kemur að hryðjuverkum í Nígeríu. Ofbeldi í landinu hefur þó aðeins aukist síðan.

Samtökin hafa ekki ennþá lýst yfir ábyrgð á árásinni í Gumsuri en fjölmargir heimildarmenn í þorpinu hafa kennt skæruliðunum um. Síðustu fimm ár hafa rúmlega 13 þúsund manns látist vegna þeirra og 1,5 milljón manna þurft að flýja heimili sín. 

Norðaustur Nígería hefur komið verst úr árásum samtakanna en þau hafa einnig látið til sín taka í nágrannaríkinu Kamerún. 

Að sögn vitna réðst hópur af byssumönnum á Gumsuri á sunnudaginn og hentu sprengjum inn í byggingar og lögðu þorpið að miklu leyti í rúst. Það tók yfirvöld fjóra daga að fá upplýsingar um árásina vegna slæmra fjarskipta á svæðinu. Jafnframt eru margir vegir á svæðinu ófærir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert