Má ekki stunda kynlíf með konunni

mbl.is/Hjörtur

Karlmanni frá Bangladesh, sem hefur verið búsettur í Bretlandi ásamt eiginkonu sinni og börnum, hefur verið bannað af dómstólum þar í landi að stunda kynlíf með konunni á þeim forsendum að hún hafi andlegan þroska á við 4-8 ára barn og geri sér þar með ekki grein fyrir því að hún geti neitað eiginmanni sínum um kynlíf. Konan er 39 ára að aldri.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að maðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, telji sig eiga skýlausa kröfu á að stunda kynlíf með eiginkonu sinni hvenær sem honum þóknist samkvæmt menningu sinni og að hún hafi ekki rétt á að neita því. Saman eiga hjónin fjögur börn en konan hefur ekki haft burði til að sjá um þau. Bæði konunni og börnunum hefur því verið komið fyrir á viðeigandi stofnunum.

Maðurinn hefur krafist þess að eiginkona hans snúi heim aftur en þau hafa verið gift í 18 ár. Fram kemur í fréttinni að hann hafi tekið sér aðra konu, frænku eiginkonu sinnar, og eignast tvö börn með henni. Dómarinn í málinu sagði manninn vilja fá eiginkonuna heim til þess að geta stundað kynlíf með henni og frænku hennar til skiptis. 

Dómarinn sagði ennfremur að kynlíf kallaði á samþykki beggja aðila. Þó konan hefði notið kynlífsins samkvæmt vitnisburði sínum hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að hún gæti hafnað því. Hún hafi ennfremur ekki skilið tenginguna á milli kynlífs og barneigna og þannig ekki haft hugmynd um það hvernig hún hefði orðið ófrísk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert