Átta börn fundust stungin til bana

Átta börn fundust myrt á heimili í Queensland í Ástralíu …
Átta börn fundust myrt á heimili í Queensland í Ástralíu í nótt. AFP

Átta börn á aldrinum 18 mánaða til fimmtán ára fundust látin á heimili í áströlsku borginni Cairns í Queensland, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þau höfðu öll verið stungin til bana. Lögreglan í Cairns hefur lokað svæðið af og er hafin rannsókn á morðunum, samkvæmt tilkynningu. Kona á fertugsaldri fannst særð á staðnum. Ástand hennar er stöðugt en hún er á sjúkrahúsi í borginni og aðstoðar lögreglu við rannsóknina.

Um 150 þúsund manns búa í Cairns en borgin er vinsæll áfangastaður meðal útlendra ferðamanna sem vilja sjá rifið, Great Barrier Reef, sem er einn fjölfarnasti áfangastaður ferðamanna sem koma til Ástralíu.

Ástralska fréttastofan,  Australian Associated Press, hefur eftir særðu konunni, Lisu Thaiday að börnin séu öll systkini og konan sé móðir þeirra. Hún segir að bróðir þeirra,sem er tvítugur að aldri, hafi fundið systkini sín látin þegar hann kom heim til sín.

Samkvæmt áströlskum fjölmiðlum voru þau stungin til bana en Cairns Post segir að þau hafi einnig verið kæfð. Fréttamaður Sky News, sem brast í grát þegar hann sagði fréttina af láti barnanna, segir að stjúpfaðir barnanna hafi einnig búið á heimilinu en ekki er vitað hvar hann er.

Hver myrti börnin er enn óljóst en yfirmaður lögreglunnar í Cairns, Bruno Asnicar, segir að almenningur þurfi ekki að óttast og ýjaði að því að morðinginn væri ekki á flótta. Hann segir þetta hörmulegan atburð.

Samkvæmt NBC var lögregla kölluð á heimilið klukkan 11:20 að morgni að áströlskum tíma, skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Tony Abbott, forsætisráðherra, segir morðin skelfilegan atburð og að hugur hans væri hjá fjölskyldunni og lögreglu sem hefði komið á morðstaðinn.

Guardian er með fréttaflutning frá Queensland

BBC

Frá Cairns í Queensland þar sem átta börn fundust myrt …
Frá Cairns í Queensland þar sem átta börn fundust myrt í nótt AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert