Bannað að nota regnhlífar

Mótmælendur spurðu hvernig embættismenn gætu óttast mátt lítilla gulra regnhlífa.
Mótmælendur spurðu hvernig embættismenn gætu óttast mátt lítilla gulra regnhlífa. AFP

Blaðamönnum var meinað að nota regnhlífar þegar þeir biðu eftir komu kínverska forsetans Xi Jinping við flugvöllinn í Macau í dag þrátt fyrir úrhellisrigningu. Fjölmenn mótmæli hafa farið fram undanfarna mánuði í Hong Kong gegn kínversku kommúnistastjórninni og víðtækum afskiptum þeirra af áætluðum kosningum í landinu, en mótmælendur hafa gjarnan borið regnhlífar og mótmælin því víða verið nefnd „regnhlífabyltingin“.

Blaðamönnum voru gefnar ýmsar ástæður fyrir banninu, en meðal þeirra var hætta sem þær sköpuðu fyrir flugvélar í aðflugi auk þess sem þær gætu tekið á loft í vindi og valdið tjóni. Regnstökkum var því dreift í stað þeirra.

Forsetinn heimsækir Macau í tilefni þess að fimmtán ár eru liðin frá því að ríkið sameinaðist Kína á ný eftir löng yfirráð Portúgala. Enginn úr fylgdarliði forsetans bar regnhlífar og hópur mótmælenda sem hugðist ganga með regnhlífar að gististað forsetans var stöðvaður af lögreglu.

Mótmælendur furðuðu sig á ótta embættismannanna við regnhlífar, en einn þeirra, Jason Chao, spurði fréttamenn „hvernig svo voldugt yfirvald gæti óttast mátt lítilla gulra regnhlífa“. Þá sagði hann að yfirvöld „neituðu ítrekað að hlusta á skýrar raddir fólksins sem krefðist aukins lýðræðis“. Lögregluþjónar í Hong Kong lokuðu á dögunum búðum mótmælenda í ríkinu, en þeim hefur farið sífellt fækkandi undanfarnar vikur.

Lögregluþjónar lokuðu búðum mótmælenda í Hong Kong á dögunum.
Lögregluþjónar lokuðu búðum mótmælenda í Hong Kong á dögunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert