Obama bannar viðskipti við Krím

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað að allur flutningur á vörum, tækni og þjónustu til Krím verði bannaður.

Tilskipun forsetans felur einnig í sér nýjar refsiaðgerðir gagnvart rússneskum og úkraínskum einstaklingum og fyrirtækjum, að því er segir á vef BBC.

Obama segir að þetta sýni fram á að Bandaríkin muni aldrei sætta sig við ákvörðun Rússa um að innlima Krímskaga í mars á þessu ári. 

Evrópusambandið greip til svipaðra aðgerða fyrr í vikunni en þær tóku gildi í dag. Í gær greindu yfirvöld í Kanada frá því að þau hefðu gripið til refsiaðgerða vegna Krím. 

Eftir að skaginn var innlimaður náðu aðskilnaðarsinnar, sem eru hliðhollir Rússum, svæðum í Donetsk- og Luhansk-héruðum í austurhluta Úkraínu á sitt vald í apríl sl. Þeir lýstu síðar yfir sjálfstæði. 

Um 4.700 hafa fallið og milljón íbúar hafa misst heimili sín vegna stríðsátakanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert