Phelps hlaut skilorðsbundinn dóm

Michael Phelps mætti fyrir dómara í Maryland í gær.
Michael Phelps mætti fyrir dómara í Maryland í gær. AFP

Bandaríski sundkappinn Michael Phelps hefur verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Phelps er sigursælasti íþróttamaður í sögu Ólympíuleikanna.

Phelps, sem er 29 ára gamall, var handtekinn í Baltimore í Bandaríkjunum í september sl. Hann var drukkinn undir stýri en áfengismagn í blóði hans reyndist vera tvöfalt yfir leyfilegum mörkum. 

Lögreglumenn stöðvuðu hann upphaflega fyrir hraðakstur, en hann ók á 135 km hraða á umferðargötu þar sem leyfilegur hámarkshraði er um 60 km á klst. 

Sundkappinn, sem hefur unnið til 18 gullverðlauna á Ólympíuleikunum, fór í meðferð um einn og hálfan mánuð á Meadows-meðferðarheimilinu í Arizona. 

Hann sagði að hann hefði uppgötvað ýmislegt um sjálfan sig á meðan hann dvaldi þar. 

„Ég er mun bjartsýnni en áður þegar ég horfi til framtíðar,“ sagði hann við blaðamenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert