Keyrði 50 km á móti umferð

Horft yfir París í Frakklandi.
Horft yfir París í Frakklandi. mbl.is/Ómar

Ölvaður ökumaður keyrði 50 kílómetra á vitlausum vegarhelmingi á hraðbraut í Vestur-Frakklandi aðfaranótt laugardags. Samkvæmt AFP ók ökumaðurinn á þrjá bíla á ferð sinni en slasaði einungis einn einstakling.

Ökumaðurinn er 56 ára karlmaður frá borginni Tours og var hann á heimleið frá Bordeaux eftir að hafa setið að sumbli lengi vel. Eftir að hafa ekið í um tvo tíma missti hann stjórn á bílnum sem skautaði á veginum um stund en ók þó ekki á. Þegar hann lagði aftur af stað var hann kominn á vitlausan vegarhelming.

Á næstu 50 kílómetrunum ók maðurinn á vegrið og minnst þrjá bíla og olli smávægilegum meiðslum hjá farþega eins þeirra. Maðurinn mun þó hafa keyrt fremur hægt og þegar hann var stoppaður við tollahlið var hann sýnilega „týndur“ og „í öðrum heimi“ að sögn lögreglu.

Mældist hann með fjórum sinnum meira áfengismagn í blóði en leyfilegt er þegar kemur að akstri ökutækja í Frakklandi. Var maðurinn látinn sofa úr sér og gert að mæta fyrir dómara í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert