Afnám kolefnisgjalds það besta fyrir konur

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu.
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, telur að afnám kolefnisgjalds sé stærsta framlag sitt til kvenna á þessu ári. Konur einbeittu sér sérstaklega að fjármálum heimilisins og útgjaldaminnkunin vegna afnáms gjaldsins kæmi sér vel fyrir meðalfjölskylduna.

Stjórnandi sjónvarpsþáttarins Today Show spurði Abbott hvert væri helsta afrek hans í málefnum kvenna á árinu sem er að líða í tilefni af uppstokkunar í ríkisstjórn hans. Hann gegnir meðal annars sérstöku embætti ráðherra kvenna, að því er kemur fram í frétt The Sydney Morning Herald.

„Þú veist að það er mjög mikilvægt að gera það rétta fyrir fjölskyldur og heimili. Eins og mörg okkar vita þá einbeita konur sér sérstaklega að heimilisbókhaldinu og afnám kolefnisgjaldsins þýðir að meðalfjölskyldan græðir 550 [ástralska] dollara á ári,“ svaraði Abbott.

Forsætisráðherrann hefur verið gagnrýndur fyrir skökk kynjahlutföll í stjórn hans en einnig fyrir stefnu í loftslagsmálum sem er á skjön við stefnu flestra annarra vestrænna þjóða. Þannig varð ríkisstjórn hans sú fyrsta í heiminum til að afnema sérstakt gjald á jarðefnaeldsneyti sem hafði á annað borð tekið það upp.

Kolefnisgjald er á meðal þeirra aðferða sem nefndar hafa verið til draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun. Framkvæmdastjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar hefur meðal annars hvatt ríki heims til að nýta tækifærið á meðan olíuverð er lágt til þess að taka upp slíkt gjald.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert