Heita drengnum aðstoð

AFP

Kínverska heilbrigðisráðuneytið hefur heitið því að veita átta ára gömlum dreng sem er HIV-smitaður aðstoð en nágrannar hans í litlu þorpi í Sichuan héraði hafa farið fram á að drengurinn verði rekinn úr þorpinu.

Um 200 þorpsbúar, þar á meðal afi drengsins sem fer með forsjá hans, rituðu undir bænaskjal í síðustu viku um að drengnum yrði vísað á brott úr þorpinu til þess að vernda heilsu þorpsbúa. Bænaskjalið vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum í Kína og þótti það lýsa fáfræði fólk í strjálbýlli hlutum landsins.

Nú hafa kínversk stjórnvöld heitið því að tryggja að drengurinn, sem gengur undir heitinu Kunkun í fjölmiðlum, menntun en hann hefur ekki fengið að ganga í skóla þar sem þorpsbúar óttast að hann smiti aðra af HIV. Eins er hann alltaf einn því það vill enginn leika við hann.

Kunkun varð eftir hjá afa sínum þegar foreldrar hans yfirgáfu þorpið fyrir nokkru en drengurinn smitaðist af móður sinni. 

Mikil umræða hefur verið á netinu um Kunkun frá því fréttir bárust af stöðu hans í síðustu viku. Hefur fólk lagt til að þorpsbúar verði líka sendir í skóla og veitt fræðsla um HIV og Aids. Eins hafa foreldrar Kunkun legið undir ámæli fyrir að hafa yfirgefið barnið sitt. 

Í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum kemur fram að þau hafi miklar áhyggjur vegna stöðu Kunkun og misrétti sem líðist í Kína. „Smán og mismunun eru helstu óvinirnir í baráttunni við HIV,“ segir í tilkynningu frá SÞ.

Afi drengsins, Luo Wenhui, sagði í viðtali um helgina að hann hafi skrifað undir bænaskjalið í þeirri von að vekja athygli á málinu. Hann teldi að Kunkun fengi betri meðferð annars staðar heldur en í heimabæ sínum. Luo segist ekki eiga langt eftir og að bænarskjalið væri tilraun til þess að vekja athygli á bágri stöðu drengsins. 

Samkvæmt frétt Global Times yfirgaf móðirin fjölskylduna árið 2006 en faðir hans lét sig hverfa eftir að Kunkun var greindur með HIV.

Reyna að reka HIV smitaðan dreng á brott

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert