Reyndi að opna flugvél á flugi

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. AFP

Karlmaður reyndi að opna neyðarútgang flugvélar sem var við það að lenda á alþjóðaflugvellinum í borginni Munchen í Þýskalandi á laugardagskvöldið. Þýska lögreglan greindi frá þessu í dag samkvæmt fréttavefnum Thelocal.de.

Fram kemur í fréttinni að flugvélin, sem er af gerðinni Airbus 319, hafi verið aðeins hálftíma frá lendingu í Munchen þegar maðurinn, sem er 54 ára að aldri, stóð upp úr sæti sínu og hélt í átt að neyðarútganginum. Flugfreyju tókst að hindra hann í að opna útganginn og kalla á aðstoð. Fleiri áhafnarmeðlimir komu henni til aðstoðar og yfirbuguðu manninn. Lögreglu var gert viðvart og var maðurinn handtekinn þegar flugvélin var lent.

Maðurinn gaf þá skýringu á hegðun sinni að hann hefði tekið inn lyf vegna flughræðslu sinnar. Hins vegar kom í ljós að hann hafði að sama skapi innbyrt mikið magn áfengis. Hann var í kjölfarið látinn laus en málið er áfram í rannsókn. Hann kann að verða ákærður fyrir að ógna öryggi farþega í flugvélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert