Peningar flugu út um allt

AFP

Lögreglan í Hong Kong segist hafa endurheimt 4,8 milljónir Hong Kong dala af þeim 15 milljónum sem hurfu eftir að peningaflutningabíll opnaðist á fjölfarinni götu í gær. 15 milljónir Hong Kong dala jafngilda tæpum 250 milljónum íslenskra króna.

Stórir staflar af seðlum féllu út úr flutningabílnum um hádegið í gær, vegna galla á hurð bílsins. Lágu peningahrúgur á götunni í nokkurn tíma eftir það og gátu vegfarendur þannig tekið pening ófrjálsri hendi, jafnvel í von um að geta haldið jólin einkar hátíðleg.

Þegar lögreglan kom á svæðið náðist að hindra fleiri í að tína upp seðlabúnt en það virðist hafa verið um seinan. Í yfirlýsingu í dag segir lögreglan að aðeins 27 manns hafi skilað peningum sem þeir tóku af götunni, þar af voru tveir með eina milljón dala hvor og annar með tvær milljónir.

Seðlarnir voru flestir 500 dala seðlar, eða sem nemur rúmum 8 þúsund krónum. Bíllinn var að flytja samtals 525 milljónir dala, eða tæpa níu milljarða íslenskra króna.

„Lögreglan mun halda áfram að leita sönnunargagna og reyna að komast á slóðir þeirra peninga sem enn eru týndir,“ segir talsmaður lögreglunnar í samtali við South China Morning Post.

Á eftirfarandi myndskeiði má sjá hvar fólk reynir í ofboði að safna seðlabúntum af götunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert