Banna barnahjónabönd

Kaupmaður býður konu í Sádí-Arabíu að bragða súkkulaði.
Kaupmaður býður konu í Sádí-Arabíu að bragða súkkulaði. AFP

Nái nýtt lagafrumvarp í Sádi-Arabíu fram að ganga mun hjónaband við konur undir 18 ára aldri verða ólöglegt. Mun einungis verða hægt að giftast stúlku undir þeim aldri gefi dómsólar sérstakt leyfi fyrir því. Þessu greinir Arab News frá.

Frumvarpið fylgir í humátt nýlegra frétta af því að stúlkur allt niður í tíu ára aldur hafi verið giftar karlmönnum á áttræðisaldri. Málin hafa vakið mikla reiði í landinu og hafa trúarleg og veraldleg yfirvöld í landinu setið undir þrýstingi um að gera athæfið ólöglegt.

Frumvarpið kemur frá dómsmálaráðuneyti landsins en sem stendur hafa svokallaðir Qadi-ar leyfi til að gifta stúlkur á hvaða aldri sem er. Samkvæmt frumvarpinu mættu dómstólar aðeins veita sérstakt leyfi að þremur skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi þarf forráðamaður stúlkunnar, sem er ávallt er karlmaður, að fara fram á að leyfið verði veitt. Þarf hann að sjá dómastólnum fyrir vottorðum um að hjónaband muni ekki valda stúlkunni líkamlegum eða sálfræðilegum skaða en vottorð munu vera veitt af sérstakri nefnd kvensjúkdómalæknis, sálfræðings og sérfræðingi í samfélagsmálum. Í öðru lagi þarf samþykki stúlkunnar og móður hennar að liggja fyrir, sérstaklega ef foreldrarnir eru fráskildir. Lokaskilyrðið lýtur að þeim tíma sem þarf að líða áður en parið lýkur við síðustu giftingarhefðirnar. Verður skilt að bíða nokkra stund svo stúlkan geti undirbúið sig fyrir hið nýja líf.

Í frumvarpinu kemur einnig fram áætlun um uppfræðingu foreldra. Flest tilfelli barnahjónabanda eiga sér stað í afskekktum héruðum innan fátækra fjölskyldna sem hafa litla menntun og eru líklegri til að fylgja hefðum og venjum. Frumvarpið mun þó ekki einungis vera ætlað til að vernda stúlkunnar heldur einnig til að fækka hjónaskilnuðum. Lögin munu þó einnig veita konum réttindi til að fara fram á ógildingu hjónabands hafi þær verið giftar gegn vilja sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert