Fæddist um borð í varðskipi

AFP

Barn, sem fæddist um borð í ítölsku varðskipi á jóladag eftir að móður þess hafði verið bjargað af togara sem smyglaði flóttafólki frá Afríku, var skírt í dag. Fékk drengurinn nafnið Testimony Salvatore til heiðurs hjúkrunarfólks sem aðstoðaði við fæðinguna um borð í varðskipinu.

Drengurinn fæddist skömmu fyrir miðnætti á jóladag og var hann 2,7 kíló að þyngd við fæðinguna. Hann dvelur ásamt móður sinni, sem er 28 ára og er frá Nígeríu, á sjúkrahúsi. 

Ítölsk yfirvöld hafa farið fram á að egypsk stjórnvöld framselji Egypta, Ahmed Mohamed Farrag Hanafi, sem er talinn hafa skipulagt smygl á fjölda fólks yfir Miðjarðarhafið. Um er að ræða bæði flóttamenn sem flýja stríðsástand og bág kjör í heimalandinu.

Móðir drengsins var á flótta ásamt fimmtán mánaða gamalli dóttur sinni en í ítölskum fjölmiðlum er haft eftir henni að hún og fjölskylda hennar hafi yfirgefið Nígeríu fyrir tveimur mánuðum og á Þorláksmessu hafi hún og yngsta barn hennar lagt af stað yfir Miðjarðarhafið frá Líbíu. Eiginmaður hennar og tveir eldri synir, 6 og 10 ára, urðu eftir í Alsír. 

Alls var 2.300 flóttamönnum bjargað í ítalskri landhelgi yfir jólin en yfir 170 þúsund hefur verið  bjargað á Miðjarðarhafi það sem af er ári. Yfir 80% þeirra leggja af stað yfir hafið í Líbíu þar sem smyglarar geta starfað óátreittir.

Við neyðaraðstoð á Miðjarðarhafi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert