Rak forsætisráðherra og embættismenn

Alexander Ljúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Ljúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Alexander Ljúkasjenkó, forseti Hvíta Rússlands, hefur rekið forsætisráðherra landsins og fjóra aðra hátt setta embættismenn landsins. Ástæðuna má rekja til þeirra áhrifa sem landið hefur orðið fyrir vegna efnahagsþrenginganna í nágrannalandi þeirra, Rússlandi. Lukashenko skipti  Mikhail Myasnikovich, sem gegnt hefur starfi forsætisráðherra frá árinu 2010, út fyrir starfsmannastjórann sinn, Andrei Kobyakov, sem er nú orðinn forsætisráðherra.

Þá var seðlabankastjóra landsins skipt út, fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra en í tilkynningu frá forsetanum segir að efnahagurinn sé það viðfangsefni sem kalli á mestu ábyrgðina og að sama skapi fylgi honum mest áhætta.

Efnahagsþrengingar í Hvíta-Rússlandi hafa sett strik í reikninginn hjá Lukashenko, sem gegnt hefur embætti forseta í 20 ár, en hann hefur gefið það út að hann hyggst sækjast eftir endurkjöri í forsetakjörinu sem fram fer í landinu á næsta ári.

Gjaldmiðill Hvíta-Rússlands er ekki tengdur við rússnesku rúbluna en þrátt fyrir það treystir landið mjög svo á Rússland og er mjög viðkvæmt fyrir efnahagssveiflum. Gengishrun rúblunnar fyrr í mánuðinum olli því mikilli óreiðu í Hvíta-Rússlandi og skiptu margir Hvítrússar ævisparnaði sínum yfir í dali.

Frá ársbyrjun hefur rúbla Hvíta-Rússlands hrunið og tapað um helming verðmætis síns. Tilkynnti seðlabanki landsins því „tímabundinn“ skatt á öll kaup á gjaldeyri en skattprósentan er 30%.

Lukashenko hefur viðurkennt að efnahagur landsins hafi orðið fyrir höggi þar sem um 40% af öllum útfluttum vörum fara yfir til Rússlands en fyrr í mánuðinum fól Lukashenko embættismönnum það verkefni að viðskipti við Rússa yrðu í dölum eða evrum.

Alexei Korol, spekingur um stjórnmál, segir breytingu forsetans á ríkisstjórninni virka eins og plástur, hún sé tímabundin lausn og hafi ekki raunveruleg áhrif á þann vanda sem til er kominn vegna efnahagsþrenginganna.

„Landið þarfnast efnahagslegra umbóta. Í stað þess að ráðast í umbætur er hann að stokka aftur gamlan stokk af spilum,“ sagði Korol við fréttaveituna AFP, og vísar þar til Lukashenko. 

„En hann mun ekki ráðast í endurbætur þar sem það yrði til þess að hann myndi missa öll völdin sín,“ sagði Korol.

Korol er ekki einn um þessa skoðun en fyrrum seðlabankastjóri Hvíta-Rússlands, Stanislav Bodgankevich, sagði þessa ákvörðun forsetans undirstrika hve óviljugur hann væri til þess að ráðast í aðgerðir til að bæta efnahag landsins.

„Það verður að viðurkenna það opinberlega að kreppa sé skollin á og það verður að koma með nýja stefnu hvað efnahaginn varðar,“ sagði Stanislav Bodgankevich.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánaði Hvíta-Rússlandi tæplega 450 milljarða íslenskra króna árið 2009 en hefur neitað landinu um frekari aðstoð eftir að Hvítrússar fóru ekki að fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert