7.000 bresk heimili í sjóinn

Mikil flóð gengu yfir Bretlandseyjar síðasta vetur með miklu eignatjóni.
Mikil flóð gengu yfir Bretlandseyjar síðasta vetur með miklu eignatjóni. AFP

Tæplega 7.000 hús munu hverfa í hafið á Englandi og Wales á næstu hundrað árum vegna hækkandi yfirborðs sjávar. Andvirði fasteignanna er yfir milljarði punda, jafnvirði hátt í 200 milljarða íslenskra króna, en þeim verður leyft að fara í sjóinn þar sem kostnaðurinn við að bjarga þeim yrði mun meiri. 

Tjónið er ekki aðeins í fjarlægri framtíð því talið er að 800 hús muni hverfa í farm Ægis á næstu tuttugu árum vegna þess hversu hratt gengur á strandsvæði. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar Bretlands sem enn hefur ekki verið birt en The Guardian hefur séð.

„Þetta er erfitt mál en við getum ekki varið allt óháð kostnaðinum. Það eru bara ekki fjármunir til að gera það og halda áfram að gera það. Þetta snýst hins vegar ekki aðeins um peninga, oft hefur fólk búið á stöðum í margar kynslóðir og það er mikil saga og minningar þar,“ segir Rob Duck, prófessor og sérfræðingur í eyðingu stranda við Dundee-háskóla.

Í skýrslu Umhverfisstofnunarinnar er gert ráð fyrir að fjárveitingar til þess að viðhalda byggð meðfram strandlengjunni haldist stöðugar. Án þessara aðgerða myndu rúmlega tífalt fleiri hús glatast á næstu hundrað árunum.

Flest þeirra hús sem búist er við að hverfi á næstu tuttugu árum og fimmtíu árum eru í Cornwall á suðvesturodda Bretlands. Á næstu hundrað árum er talið að sex sveitarstjórnir muni tapa 200 húsum eða fleiri; Stærri-Yarmouth, Southampton, Cornwall, Norður-Norfolk, austurhreppur Jórvíkurskíris og Scarborough.

Frétt The Guardian af áhrifum hækkandi yfirborðs sjávar á Bretlandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert