Breti um borð í flugvélinni

AFP

Breskur ríkisborgari er á meðal farþega um borð í flugvél AirAsia sem samband rofnaði við seint í gærkvöldi á leið frá Indónesíu til Singapúr. Breska utanríkisráðuneytið hefur staðfest þetta samkvæmt frétt AFP. 

„Við höfum verið upplýst um það af yfirvöldum á svæðinu að einn breskur ríkisborgari sé um borð. Ættingjar hans hafa verið látnir vita,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu. Áður hafði flugfélagið sagt að 156 af farþegunum væru Indónesar, þrír væru frá Suður-Kóreu, einn frá Malasíu, einn frá Singapúr og einn frá Frakklandi en heildarfjöldi farþega er 162. Hugsanlegt er talið að einhver farþeganna sé með tvöfalt ríkisfang. Einnig er talið að aðstoðarflugmaðurinn sé líklega franskur ríkisborgari.

Flugvélin hóf sig á loft frá alþjóðaflugvellinum í Surabaya í Indónesíu klukkan 22:20 í gærkvöldi að íslenskum tíma og átti að lenda um tveimur tímum síðar í Singapúr. Um klukkustund eftir flugtak óskaði flugvélin eftir heimild til þess að hverfa frá upphaflegri flugleið og hækka flugið til þess að forðast sæmt veður. Síðan hefur ekki spurst til hennar. Leit er hafin að flugvélinni en aðstæður til leitar eru erfiðar.

Fréttir mbl.is:

Hefja leit að flugvélinni

Flugvélar AirAsia saknað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert