Leit að flugvélinni frestað

AFP

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta frekari leit að farþegaflugvél lággjaldaflugfélagsins AirAsia, sem samband rofnaði við seint í gærkvöldi á leiðinni frá Indónesíu til Singapúr, vegna versnandi leitarskilyrða. Bæði vegna veðurs og þar sem myrkur er skollið á á svæðinu. 

Haft er eftir talsmanni samgönguráðuneytis Indónesíu í frétt AFP að leit hafi verið hætt klukkan 10:30 að íslenskum tíma í morgun af þessum sökum. Leit hefst aftur klukkan 12 á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma. Flugvélin, sem er af gerðinni Airbus A320-200, var stödd í slæmu veðri þegar sambandið við hana rofnaði. Um klukkustund klukkustund var þá liðin frá því að flugvélin hóf sig á loft frá alþjóðaflugvellinum í Surabaya í Indónesíu. Áætlaður lendingartími flugvélarinnar var hálf eitt í nótt að íslenskum tíma.

Skömmu áður en sambandið rofnaði við flugvélina hafði hún óskað eftir heimild frá flugumferðarstjórn í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, til þess að hverfa frá upphaflegri flugáætlun og klifra upp í 38 þúsund fet til þess að forðast óveðrið. Síðan hefur ekki spurst til flugvélarinnar og ekkert neyðarkall barst frá henni.

Tvær flugvélar frá flugher Indónesíu tóku þátt í leitinni í morgun auk björgunarþyrlu. Leitin fór fram í kringum eyjarnar Bangka og Belitung. Þrjú skip frá Malasíu taka þátt í leitinni á morgun auk þriggja flugvéla. Þá hefur Singapúr boðið fram C-130 Hercules flugvél og Ástralir hafa einnig boðið fram aðstoð sína við áframhaldandi leit.

Samtals eru 162 manns um borð og þar af sjö manna áhöfn. Flestir þeirra eru frá Indónesíu eða 155. Þrír eru frá Suður-Kóreu, einn frá Singapúr, einn frá Malasíu og einn Breti auk þess sem aðstoðarflugmaðurinn er franskur ríkisborgari.

Fréttir mbl.is:

Hefja leit að flugvélinni

Flugvélar AirAsia saknað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert