Páfi lætur til sín taka í loftslagsmálum

Frans páfi ætlar að láta til sín taka í baráttunni …
Frans páfi ætlar að láta til sín taka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. AFP

Heimildir herma að Frans páfi ætli að gera sitt til að fá þjóðir heims til að bregðast við loftslagsbreytingum á komandi ári. Hann mun meðal annars senda út svonefnt umburðarbréf til kaþólikka heimsins, halda ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og kalla helstu trúarleiðtoga heimsins til fundar.

Marcelo Sorondo, heiðursrektor vísindaakademíu Páfagarðs og náinn samverkamaður páfa, segir ástæðuna fyrir annríki páfa á komandi ári vera þá að hann vilji hafa bein áhrif loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í París í desember. Þar freista þjóðir heims þess að koma sér saman um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að reyna að lágmarka áhrif loftslagsbreytinga.

„Fræðimenn okkar styðja frumkvæði páfa að hafa áhrif á þessar áríðandi ákvarðanir sem teknar verða á næsta ári. Hugmyndin er að kalla saman leiðtoga helstu trúarbragðanna til fundar til að gera öllum ástand loftslagsins okkar og harmleik félagslegrar útilokunar ljósan,“ segir Sorondo.

Í mars ætlar Frans páfi að heimsækja borgina Tacloban á Filippseyjum sem var illa leikin í fellibylnum Haiyan árið 2012. Í kjölfarið mun hann gefa út svonefnt umburðarbréf um loftslagsbreytingar og vistfræði mannsins. Þar mun hann hvetja alla kaþólikka, sem eru um 1,2 milljarðar talsins í heiminum, til að grípa til aðgerða á siðferðislegum og vísindalegum forsendum.

Líklegt er að frumkvæði páfa í loftslagsmálum falli sums staðar í grýttan jarðveg, meðal annars hjá íhaldssamari öflum innan Páfagarðs og hægrisinnuðum kirkjum, sérstaklega í Bandaríkjunum. Áberandi afneitunarsinnar í loftslagsmálum eins og John Boehner, leiðtogi repúblíkana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, og Rick Santorum, sem keppti um að verða forsetaframbjóðandi flokksins fyrir tveimur árum, eru til dæmis kaþólikkar.

Frétt The Guardian af áformum Frans páfa í loftslagsmálum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert