Skelfilegar lýsingar farþega

Frá björgun farþega um borð í ítölsku ferjunni Norman Atlantic
Frá björgun farþega um borð í ítölsku ferjunni Norman Atlantic AFP

Tekist hefur að bjarga 190 af þeim 478 sem voru um borð í ítalskri ferju sem kviknaði í á Jónahafi í nótt. Lýsingar farþega af ástandinu um borð eru skelfilegar en ítalska landhelgisgæslan segist hafa náð stjórn á eldinum.

Eitt lík fannst fyrr í dag í sjónum skammt frá ferjunni en hún var stödd í rúmlega 40 sjómílna fjarlægð frá grísku eyjunni Korfú er eldurinn kom upp á bílarými hennar. Ekki er vitað um upptök eldsins.

Vassiliki Tavrizelou, sem var bjargað frá borði ásamt tveggja ára gamalli dóttur, segir í samtali við AP-fréttastofuna að það hafi reynst erfitt fyrir björgunarskip að komast að ferjunni vegna úrkomu og roks. Hún segir að þær mæðgur hafi beðið í fjóra tíma á þilfari ferjunnar í ískulda og rigningu áður en þeim var bjargað um borð í björgunarbát. 

Hún lýsir því hvernig brunakerfi ferjunnar hafi farið af stað og hún hafi séð eldinn frá káetu sinni. „Síðan heyrðum við sprengingar.“

Annar farþegi segir að margir hafi átt í erfiðleikum með að anda vegna reyksins. Þeir hafi beðið á þilfarinu enda ferjan full af reyk. „Skipið brennur enn og gólfin eru sjóðandi,“ sagði Giorgos Stiliaras í viðtali við gríska sjónvarpsstöð. 

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, skrifar á Twitter í kvöld að þetta verði löng nótt. 

Maðurinn sem fannst látinn í sjónum hafði fallið í sjóinn þegar verið var að bjarga honum og eiginkonu hans frá borði. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir við að ná honum lifandi um borð var hann látinn þegar björgunarmenn náðu loks til hans. Það tókst hins vegar að bjarga konu hans um borð og er hún á sjúkrahúsi í Brindisi.

268 af farþegum ferjunnar eru Grikkir en í áhöfninni eru 22 Ítalir og 34 Grikkir. 54 Tyrkir voru farþegar um borð, 44 Ítalir, 22 Albanar, 18 Þjóðverjar auk Svisslendinga, Austurríkismanna, Breta og Hollendinga.

Örvænting ríkir meðal farþega ferjunnar

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert