Ekki um að ræða brak úr flugvélinni

Fljótandi brak, sem fannst á þeim slóðum þar sem farþegaflugvél malasíska lággjaldaflugfélagsins AirAsia var stödd þegar samband við hana rofnaði um helgina, er ekki úr flugvélinni.

Varaforseti Indónesíu, Jusuf Kalla, staðfesti þetta í dag á blaðamannafundi í kjölfar þess að áhöfn ástralskrar eftirlitsflugvélar tilkynnti að hún hefði komið auga á eitthvað fljótandi í hafinu. Ekkert benti til þess að um væri að ræða eitthvað sem tengdist flugvélinni.

Skip og flugvélar frá Indónesíu, Malasíu, Singapúr og Ástralíu hafa leitað á svæðinu í dag þar sem flugvélin hvarf með 162 manns um borð á leiðinni frá Indónesíu til Singapúr. Kalla sagði 15 skip og 30 flugvélar taka þátt í leitinni. Aðstæður til leitar væru hins vegar erfiðar. Einkum vegna veðurs. 

Haft er eftir Hadi Tjahjanto, talsmanni indónesíska flughersins, að áhersla væri lögð á að leita á svæði út af Belitung-eyju þar sem olíurák sást í morgun. Ekki liggi fyrir hvort olían tengist flugvélinni eða sé úr skipi.

Ættingjar og vinir þeirra sem voru um borð í flugvélinni …
Ættingjar og vinir þeirra sem voru um borð í flugvélinni bíða á milli vonar og ótta eftir fréttum af afdrifum þeirra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert