Fimm farþegar látnir

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir að eldur kviknaði í bílaferju á Jónahafi. Þetta segja grísk og ítölsk yfirvöld. Fólk sem hefur komist lífs af hefur lýst hræðilegri þrekraun og segja að litlu hefði mátt muna að mun fleiri hefðu látið lífið.

Fjögur lík hafa fundist í hafinu við ferjuna Norman Atlantic í dag. Í gær fannst lík 62 ára gamals grísks manns við ferjuna. Veðrið er slæmt á svæðinu og ólgusjór.

Alls voru 478 farþegar um borð í ferjunni. Einn farþegi segir í samtali við fjölmiðla að hann hefði talið sig eiga skammt eftir þegar þykkan svartan reyk lagði yfir ferjuna, sem var að sigla frá Grikklandi til Ítalíu. 

„Við vissum ekki hvað við áttum að gera. Áhöfnin hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að koma fólki úr ferjunni,“ sagði hann. 

„Björgunarbátarnir virkuðu ekki, það var aðeins einn í sjónum og enginn úr  áhöfninni var á staðnum til að aðstoða fólk.“

Um 60 manns - aðallega fólk úr áhöfn skipsins, voru enn um borð í ferjunni nú um kl. 12 að íslenskum tíma, um 36 klukkustundum eftir að eldurinn braust út.  Talið er að eldur hafi kviknaði í bifreið. Vonskuveður er á svæðinu og mikil öldugangur og hefur ferjuna rekið stjórnlaust síðan eldurinn kviknaði.

Herskip eru á svæðinu en þyrlur hafa verið notaðar til að sækja fólkið. Það gekk hægt í gær en björgunaraðgerðirnar hafa gengið hraðar fyrir sig í dag. 

Uppfært kl. 13:08

Búið er að koma öllum farþegum til bjargar að sögn ítölsku strandgæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert