Flóðhesturinn A Ho dauður

Hér má sjá A Ho liggja á götunni eftir að …
Hér má sjá A Ho liggja á götunni eftir að hann féll af flutningabíl á öðrum degi jóla. A Ho drapst ekki við fallið en særðist og var svo fluttur í tjörn þar sem hann fannst dauður skömmu síðar. AFP

Flóðhestur í Taívan drapst í dag en hann lenti í tveimur slysum í síðustu viku. Fyrra slysið varð þegar flóðhesturinn féll af flutningabíl á ferð og það síðara er gámur sem dýrið var flutt í datt ofan í tjörnina þar sem átti að sleppa honum.

Flóðhesturinn heitir A Ho. Hann fannst dauður í tjörn sinni á bóndabýli í miðborg Taichung. Landbúnaðarráðherra Taívan gagnrýnir eiganda A Ho harðlega. Hann segir eigandann hafa sýnt kæruleysi við flutning dýrsins. Flóðhesturinn verður krufinn til að komast að því hvert banamein hans var. Yfirvöld íhuga að lögsækja eigandann.

Mörg dýr eru á bóndabæ mannsins sem átti A Ho. Yfirvöld hafa farið fram á að hann kynni þeim sérstaklega hvernig meðferð þeirra dýra er og hvernig bæta megi aðbúnað þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert