Ríkisstjórnin lokar fyrir Gmail

„Við höfum athugað og það er ekkert að á okkar …
„Við höfum athugað og það er ekkert að á okkar enda tengingarinnar," segir Google í tölvupósti. AFP

Gmail póstþjónusta Google er nú með öllu óaðgengileg á meginlandi Kína, samkvæmt nýjum gögnum frá tæknirisanum.

Skýrsla Google sýnir að netumferð hóf að minnka seint á jóladag og náði botninum strax um miðjan daginn eftir. Þykir þetta vera enn eitt skref ríkisstjórnar Kína í þá átt að loka algjörlega fyrir þjónustu Google við íbúa landsins, en þessar nýju hömlur koma algjörlega í veg fyrir að þeir geti nýtt sér þjónustu fyrirtækisins án þess að notast við VPN-tengingar.

Kínversk yfirvöld höfðu þegar í júní lokað fyrir aðgang að fjölmörgum vefþjónustum sem fyrirtækið býður upp á, þar á meðal Gmail. Hins vegar hefur pósturinn hingað til verið aðgengilegur í gegnum ýmsar krókaleiðir, svosem IMAP og POP3 gagnastaðlana, sem margir snjallsímar notast við.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Hua Chunying, segir í yfirlýsingu í dag að Kína hafi ávallt velkomið og stutt við erlenda fjárfesta sem vilja stunda viðskipti af alvöru í landinu. „Við munum, eins og alltaf, útvega opið og gagnsætt umhverfi fyrir erlend fyrirtæki í Kína.“

Google hefur neitað því að vandinn sé á þeirra ábyrgð. „Við höfum athugað og það er ekkert að á okkar enda tengingarinnar,“ segir fyrirtækið í tölvupósti til bandaríska tímaritsins Time.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert