Lögreglukonan látin - bræðurnir fundnir?

Lögreglukona sem var skotin í morgun, skammt frá neðanjarðarlestarstöð í Montrouge-hverfinu, suður af París, er látin. Ekki er vitað hvort árásin í morgun tengist hryðjuverkaárásinni á ritstjórnarskrifstofu tímaritsins Charlie Hebdo í gær þar sem 12 manns létust.

Starfsmaður Parísarborgar særðist í árásinni í morgun en hann er ekki í lífshættu. Að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Bernards Cazeneuves, sem flýtti sér á vettvang eftir að tilkynnt var um árásina snemma í morgun, er byssumannsins enn leitað.

Samkvæmt frétt Le Parisien er talið að tveir menn sem svara til lýsingar á þeim Chérif og Saïd Kouachi, sem eru grunaðir um árásina í gær, hafi sést á þjóðveginum í Villers Cotterets (Aisne). Mennirnir voru á Renault Clio-bifreið og var búið að hylja númeraplötur bifreiðarinnar. Mennirnir voru grímuklæddir og þungvopnaðir.

Ráðist hefur verið á moskur á nokkrum stöðum í Frakklandi í kjölfar árásarinnar í gær. Þremur handsprengjum var varpað á mosku í Le Mans í gærkvöldi og eins eru göt eftir byssukúlur á rúðum moskunnar. Enginn slasaðist í árásinni.

Í Port-la-Nouvelle, skammt frá Narbonne í Suður-Frakklandi, var nokkrum skotum skotið á bænasal múslíma skömmu eftir kvöldbænir. Enginn var í salnum þegar skotárásin var gerð.

Í morgun sprakk sprengja við kebab-stað, skammt frá mosku í bænum Villefranche-sur-Saone í Austur-Frakklandi, en enginn særðist í árásinni.

 Le Figaro birtir myndskeið af vettvangi

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert