Hafa myrt allt að 2.000 manns

Þessi mynd var tekin í Baga 2013.
Þessi mynd var tekin í Baga 2013. AFP

Hundruð líka, of mörg til að telja, liggja enn á víð og dreif um Baga í Nígeríu, eftir að liðsmenn Boko Haram réðust inn í bæinn á miðvikudag. Flestir þeirra myrtu eru börn, konur og eldra fólk, sem gat ekki hlaupið nógu hratt undan skothríð hryðjuverkamannanna.

Áframhald hefur verið á bardögum umhverfis Baga í dag, þar sem liðsmenn samtakanna yfirtóku herstöð 3. janúar sl. Guardian hefur eftir talsmanni stjórnvalda að umtalsverður herafli hafi verið sendur á svæðið, en talið er að allt að 2.000 íbúar bæjarins hafi verið myrtir.

Fregnir hafa borist af því að liðsmenn Boko Haram hafi ráðist inn í 16 þorp í nágrenni Baga í vikunni og valdið dauða og eyðileggingu.

Talsmaður hóps íbúa Baga sem á í bardögum við hryðjuverkamennina segir félaga sína hafa gefist upp á að telja líkin. „Enginn getur sinnt líkunum né þeim sem hafa særst alvarlega, og kunna að vera dánir núna,“ sagði Muhammad Abba Gava við Associated Press.

Ef fjöldi látinna reynist í kringum 2.000 líkt og talið er er um að ræða óhugnanlega stigmögnun á framsókn Boko Haram, að sögn Amnesty International. Þá er um að ræða mestu blóðsúthellingar af hendi samtakanna síðan í  mars sl., þegar liðsmenn þeirra myrtu 600 manns í árás á Giwa-herstöðina í borginni Maiduguri.

1,5 milljónir manna hafa flúið heimili sín í Nígeríu á síðustu misserum, og margir þeirra munu ekki getað kosið í forsetakosningum sem haldnar verða í landinu eftir fimm vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert