Ný gíslataka í París

Maðurinn sem myrti lögreglukonu í París í gær hefur tekið fólk í gíslingu í matvörubúð í París en í búðinni eru seldar matvörur gyðinga. Þetta herma heimildir AFP. Um er að ræða matvöruverslun við port de Vincennes í austurhluta borgarinnar. Þaðan hafa heyrst skothvellir. 

Þið vitið hver ég er

Sjónvarpsstöðin BFM segir að hann haldi fimm manns í gíslingu í versluninni, sem er í 20. hverfi. Meðal gíslanna eru börn. Á gíslatökumaðurinn að hafa sagt við lögreglu: „Þið vitið hver ég er.“ Samkvæmt frétt BFM er að minnsta kosti einn særður.

Samkvæmt Le Figaro er Bernard Cazeneuve innanríkisráðherra kominn á vettvang en forseti Frakklands, Francois Hollande, stýrir aðgerðum í forsetahöllinni.

Samkvæmt Le Point eru starfsmenn og viðskiptavinir gyðingaverslunarinnar lokaðir inn í kjallara hússins. 

Le Monde greinir frá því að búið sé að rýma allt svæðið í kring af lögreglu. 

Franska lögreglan segir að það séu tengsl á milli morðingja lögreglukonu, Clarissu Jean-Philippe, sem var skotin til bana í úthverfi Parísar í gærmorgun, og bræðranna sem taldir eru bera ábyrgð á fjöldamorðunum á ritstjórn Charlie Hebdo.

Það nýjasta sem fram hefur komið í rannsókninni er að það eru tengsl á milli skotárásanna,“ segir heimildarmaður AFP-fréttastofunnar. 

Tilheyra sama hryðjuverkahópi

Á sama tíma og franska þjóðin var að ná áttum eftir fjöldamorðin sem framin voru af grímuklæddum vopnuðum mönnum skaut maður, klæddur skotheldu vesti, vopnaður skammbyssu og riffli, lögreglukonu til bana og særði borgarstarfsmann alvarlega í Montrouge-hverfinu í París. Fórnarlömb árásarinnar höfðu verið send á vettvang vegna umferðarslyss.

Lögreglan greindi frá því í dag að borin hefðu verið kennsl á manninn sem drap lögreglukonuna og tvær manneskjur honum nátengdar eru í haldi lögreglu.

Reuters-fréttastofan hefur fengið það staðfest hjá lögreglu að morðinginn hafi verið liðsmaður sama hryðjuverkahóps og bræðurn­ir Chérif og Saïd Kouachi.

Um er að ræða hryðjuverkahóp sem hefur verið kenndur við 19. hverfi Parísarborgar þar sem fjölmargir múslímar búa. Cherif Kouachi var dæmdur í fangelsi fyrir aðild sína að hópnum árið 2008. Sá sem talinn er hafa skotið lögreglukonuna var dæmdur árið 2010 fyrir hlut sinn í að undirbúa flótta Smains Alis Belkacems úr fangelsi en Belkacem er hugmyndasmiðurinn á bak við hryðjuverkaárás á lestarstöð í París árið 1995. Þar létust átta manns og 120 særðust.

Uppfært kl. 13.30

AFP fréttaveitan segir að minnsta kosti tveir séu látnir í gíslatökunni.

Uppfært kl. 13.35

Franska lögreglan hefur óskað eftir upplýsingum um Boumeddiene Hayat, 26 ára konu, og Amedy Coulibaly, 32 ára karlmann, en sá síðarnefndi er grunaður um að hafa skotið lögreglukonuna Clarissu Jean-Philippe til bana í úthverfi Parísar í gærmorgun og kann að standa að gíslatökunni í matvöruversluninni. Fólkið er sagt vera vopnað og hættulegt. Mynd af fólkinu má sjá í Twitter-tísti hér að neðan. 

Uppfært kl. 13.55

Vitni hefur greint Le Figaro frá því að þeldökkur maður hafi ráðist inn í verslunina með Kalashnikov árásarriffil og þegar hafið skothríð. Hann sagði að minnsta kosti sex manns í matvörubúðinni á þeim tíma.

Uppfært 14.11

Staðfest hefur verið að Amedy Coulibaly var dæmdur í desember árið 2013 í fimm ára fangelsi fyrir aðild að flótta Smains Alis Belkacems úr fangelsi en sá var hugmyndasmiðurinn á bak við hryðjuverkaárás á lestarstöð í París árið 1995. Talið er fullvíst að Coulibaly hafi myrt lögreglukonuna Clarissu Jean-Philippe í gærmorgun. Boumeddiene Hayat er unnusta Coulibaly en óvíst er með hennar þátt.

Chérif Kouachi, sem ásamt bróður sínum er umkringdur í smábænum Dammartin-en-Goële, tengdist einnig fyrirhuguðum flótta Belkacems en sá var liðsmaður íslamskra öfgasamtaka í Alsír, GIA, sem stóðu á bak við nokkur sprengjutilræði og flugrán í Frakklandi á tíunda áratugnum.

Þá hefur komið fram að neyðarfundur verði haldinn í forsetahöllinni klukkan 14.15, þar sem François Hollande Frakklandsforseti, forsætisráðherrann Manuel Valls, innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve og dómsmálaráðherrann Christiane Taubira munu ráða ráðum sínum.

Uppfært 14.26

Sífellt betri upplýsingar fást um tengsl Chérif Kouachi og Amedy Coulibaly. Þannig greinir Le Monde frá því að þeir hafi verið einir helstu fylgismenn hryðjuverkamannsins Djamel Beghal. Sá sagði árið 2001 að Osama Bin Laden hefði fengið sig til að takast á hendur sjálfsmorðsárás á bandaríska sendiráðið í Frakklandi. Af henni varð hins vegar ekki.

Hér að neðan má sjá gríðarlegan fjölda lögreglubíla sem eru við matvöruverslunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert