Vitnaði í biblíuna gegn loftslagsbreytingum

James Inhofe, formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.
James Inhofe, formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings. Af Wikipedia

Formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings vitnaði í biblíu kristinna manna um að loftslagsbreytingar væru alltaf að eiga sér stað. Hann sagði það bera vott um hroka að telja að menn gætu breytt loftslagi jarðarinnar.

James Inhofe, öldungadeildarþingmaður repúblikana, tók við formennsku í umhverfisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings nú í janúar eftir meirihlutaskipti urðu í henni. Hann hefur verið einhver mesti efasemdamaðurinn um loftslagsbreytingar af völdum manna á meðal repúblikana sem afneita þeim flestir. Segja má að Inhofe hafi skrifað bókina um andstöðu gegn loftslagsvísindum enda skrifaði hann bók um hvernig kenningin um loftslagsbreytingar af völdum manna væri „stærsta gabbið“ árið 2012.

Þegar þingmaður demókrata lagði fram tillögu um að öldungadeildin ályktaði um að loftslagsbreytingar væru raunverulegar og ekki gabb þá sætti Inhofe lags og studdi tillöguna þar sem ekki var kveðið sérstaklega á um að loftslagsbreytingarnar væru vegna losun manna á gróðurhúsalofttegundum. Inhofe hefur margítrekað að loftslagsbreytingar hafi alltaf átt sér stað í jarðsögunni, án íhlutunar manna. Hann greip til biblíunnar máli sínu til stuðnings.

„Loftslagið er að breytast og loftslagið hefur alltaf breyst. Það eru fornleifafræðilegar vísbendingar um það. Það eru biblíulegar vísbendingar um það. Það eru sögulegar vísbendingar um það. Gabbið er það að það er sumt fólk sem er svo hrokafullt að halda að það sé svo valdamikið að það geti breytt loftslaginu. Maðurinn getur ekki breytt loftslaginu,“ sagði Inhofe í þingsal.

Samhljóða álit vísindamannsins er að meðalhitastig jarðarinnar sé að hækka og að losun manna á gróðurhúsalofttegundum sé aðalástæða þess.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af orðaskiptunum í öldungadeildinni þar sem Inhofe vitnar til biblíunnar gegn loftslagsbreytingum af völdum manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert