Man ekki eftir nauðguninni

mbl.is

Ung kona trúði því ekki að henni hefði verið nauðgað fyrr en hún sá myndband af glæpnum. Þessu greinir Fox Sports frá.

Konan var þá 21 árs háskólanemi við Vanderbilt-háskólann og hafði verið að slá sér upp með jafnaldra sínum, Brandon Vandenberg. Sá spilaði fyrir lið skólans í amerískum fótbolta.

Eitt kvöld í júní árið 2013 hafði konan drukkið nokkuð af áfengum drykkjum og vaknaði í kjölfarið í ókunnu svefnherbergi án nokkurra minninga um kvöldið áður. Hún segir að Vandenberg hafi sagst hafa sinnt henni eftir að hún ældi í svefnherberginu hans, sem hafi verið ömurlegt fyrir hann. Bað hún Vandenberg margsinnis afsökunar og þótti uppákoman hin vandræðalegasta. Upptökur úr öryggismyndavélum sýndu hins vegar að atburðarásin var önnur.

Lögreglumenn báðu konuna upprunalega um að fara í skoðun hjá lækni en hún neitaði. Þegar Vandenberg sendi henni skilaboð um að honum yrði líklega vísað úr fótboltaliðinu svaraði hún: „Ég vil ekki að neinn lendi í vandræðum vegna mín. Ég mun gera allt sem ég get til að hreinsa þig af ásökununum.“

Konan segir sitt helsta markmið hafa verið að vernda hann. Enn þann dag í dag man hún ekkert eftir því sem gerðist en eftir að Vandenburg og þrír aðrir leikmenn fótboltaliðsins voru kærðir fyrir að nauðga henni sá hún myndbönd af nauðguninni.

Saksóknari spilaði fyrir kviðdóm myndbönd af árásinni sem sögð eru hafa verið tekin upp á farsíma Vandenbergs. Hann er sagður hafa útdeilt smokkum og hvatt leikmenn til þess að stunda „kynlíf“ með meðvitundarlausri konunni. Hann leyfði jafnvel einum vina sinna að hafa þvaglát á fórnarlambið.

Allir fjórir mennirnir hafa neitað sök í málinu en réttarhöld yfir tveimur þeirra standa nú yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert