Ætlaði að ganga til liðs við Ríki íslams

AFP

Nítján ára gömul stúlka í Denver í Bandaríkjunum var í gær dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa ætlað að ganga til liðs við bardagasveitir Ríkis íslams í Sýrlandi. Kviðdómurinn taldi Shannon Conley vera seka þrátt fyrir að hún hafi grátbeðið um fyrirgefningu og sagt að ætlunin hafi aldrei verið að skaða neinn. 

Hún hélt því fram fyrir dómi að hún hafi villst af leið þegar hún var að læra um íslam og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir voðaverkum ISIS-manna fyrr en eftir að hún var handtekin. 

„Ég er fegin að hafa komist að því hverjir þetta eru raunverulega áður en ég gekk til liðs við þá,“ sagði Conley einnig fyrir dómi og bætti við: „Ég hef afneitað öfgatrúnni sem heltók mig á tímabili og nú trúi ég á hið sanna íslam, þar sem hvatt er til friðar.“

Dómarinn í málinu sagðist ekki trúa því, að Conley sé heilbrigð, og taldi hana þurfa á sálfræðiaðstoð að halda. Auk þess að vera dæmd í fjögurra ára fangelsi bætast við það þrjú ár af reynslulausn auk þess sem henni er nú bannað að eiga sprengjuefni. „Ég tek ekki áhættuna með þig,“ sagði dómarinn.

Sjá frétt CBS-news

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert