Fordæmir „grimmilegt morð“

Skjáskot úr myndbandi Íslamska ríkisins sem sýnir gíslana Kenji Goto …
Skjáskot úr myndbandi Íslamska ríkisins sem sýnir gíslana Kenji Goto (t.v.) og Haruna Yukawa (t.h.). AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í dag Íslamska ríkið fyrir það sem hann kallaði „grimmilegt morð“ á japönskum gísl þrátt fyrir að enn hafi ekki verið staðfest að maðurinn sé látinn. Samtökin fjarlægðu myndband af vefsíðu sinni sem þau sögðu sýna aftöku gíslsins.

Ekki kom fram í yfirlýsingu sem Obama sendi frá sér hvernig bandarísk stjórnvöld vissu að Haruna Yukawa, annar tveggja japanskra gísla sem Íslamska ríkið halda, væri látinn. Japönsk stjórnvöld hafa reynt að sannreyna að myndband sem öfgasamtökin birtu í dag væri ósvikið. Þau hafa ekki tjáð sig um fordæmingu Obama.

Myndbandið sem átti að sýna aftöku Yukawa var tekið niður af vefsíðu Íslamska ríkisins í dag og AP-fréttastofan segir að liðsmenn öfgasamtaka sem tengjast Íslamska ríkinu hafi véfengt trúverðugleika þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert