Tímamótakosningar í Grikklandi

Grikkland stendur á tímamótum en þingkosningar fara fram í landinu á morgun. Takast þar sérstaklega á tvö stjórnmálaöfl, annars vegar núverandi stjórnarflokkur, Nýi lýðræðisflokkurinn, og vinstriflokkurinn Syriza, með Alexis Tsipras í broddi fylkingar. Nái Syriza meirihluta gæti það þýtt að Grikkland lendi upp á kant við alþjóðlega lánardrottna landsins.

Ástæða þess er sú að Syriza vill endursemja um 318 milljarða evra skuld Grikklands og binda þannig enda á áralangar launaskerðingar og hömlur á eyðslu þess opinbera í landinu sem til eru komnar vegna þeirra skuldbindinga sem Grikkland gekkst við vegna fjárhagsaðstoðar í kjölfar efnahagshruns landsins.

Líkurnar á því að flokkur Alexis Tsipras sigri kosningarnar hafa því valdið áhyggjum þess efnis að Grikklandi takist ekki að standa við skuldbindingar sínar um afborganir á lánum og yfirgefi þar af leiðandi evrusamstarfið.

Samkvæmt skoðanakönnunum er Syriza með a.m.k. fjögurra prósentustiga forskot á núráðandi stjórnmálaflokk, Nýja lýðræðisflokkinn sem forsætisráðherra landsins, Antonis Samaras, fer fyrir.

Formennirnir tveir, Tsipras og Samaras, fóru mikinn í lokaræðum sínum. Lofaði Tsipras í ræðu sinni að hann myndi endurheimta virðingu Grikklands á meðan Samaras sagði stuðningsmönnum flokksins að það væri klikkun að kjósa Syriza á þessum tímapunkti; þegar fjárhagsleg endurskipulagning sem hann hefði stutt væri loksins að fara að borga sig.

„Syriza mun egna alla Evrópu gegn Grikklandi.... Þeir skilja ekki Evrópu, þeir trúa ekki á Evrópu,“ sagði Samaras.

Skorið hefur verið inn að beini í Grikklandi á undanförnum árum vegna 240 milljarða evra lánsins frá Evrópusambandinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Seðlabanka Evrópu en atvinnuleysi í landinu er um 25 prósent.

Tsipras hefur gefið það út að hann vilji vinna að lausn vegna skuldarinnar við Seðlabanka Evrópu fyrir júlí á þessu ári og hefur lofað að upphæðin verði lækkuð um helming.

Kosið um stöðugleika eða óvissu

Þrátt fyrir fögur loforð Tsipras eru ekki allir sannfærðir.

„Tsipras er frambærilegur, geðþekkur og góður ræðumaður en hvað getur hann aðhafst í þeirri stöðu sem við erum nú í?“ sagði Evdokia Kasoli, ellilífeyrisþegi í Aþenu.

Aðrir kjósendur binda miklar vonir við þessa nýju nálgun Tsipras, jafnvel þó að það þýði að landið taki stökk inn í óvissuna.

„Við vitum ekki hvort Tsipras muni takast að lækka skuldina en við vonumst eftir því að honum takist að gera hana viðráðanlegri,“ sagði Paris Lizos, 59 ára gamall atvinnulaus faðir tveggja barna, á lokafundi Syriza á fimmtudaginn.

Í samtali við AFP-fréttaveituna sagði starfsmaður Syriza að flokkurinn stefndi á sigur og væri tilbúinn að mynda samsteypustjórn ef þess þyrfti.

„Skoðanakannanir sýna að við erum fimm til tíu prósentustigum yfir Nýja lýðræðisflokknum. Það eina sem á eftir að koma í ljós er hvort við náum hreinum meirihluta,“ sagði hann.

Á sama tíma segir Samaras að allt að 14% kjósenda séu enn óákveðin og spáir hann því að þeir kjósendur muni kjósa „stöðugleikann“ fram yfir óvissuna.

Þá hafa grískir fjölmiðlar ekki látið sitt eftir liggja í tengslum við kosningarnar og halda því margir fram að kosningin geti markað stór tímamót í sögu landsins.

„Festið sætisólarnar,“ sagði blaðið Proto Thema weekly. Varaði blaðið við því að landið yrði með aðra löppina utan við evrusvæðið ef ekki tækist að halda áætlun við greiðsluáætlun Seðlabanka Evrópu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur sagt að hún vilji að Grikkland verði áfram hluti af sögunni.

Antonis Samaras (til vinstri) og Alexis Tsipras (til hægri) etja …
Antonis Samaras (til vinstri) og Alexis Tsipras (til hægri) etja kappi í þingkosningum í Grikklandi. Kosið verður á morgun. AFP
Antonis Samaras á lokafundi fyrir þingkosningarnar.
Antonis Samaras á lokafundi fyrir þingkosningarnar. EPA
Stuðningsmenn Nýja lýðræðisflokksins.
Stuðningsmenn Nýja lýðræðisflokksins. AFP
Alexis Tsipras.
Alexis Tsipras. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert