Vilja einkaleyfi á „Je suis Charlie“

Setningin Je suis Charlie hefur verið notuð um allan heim …
Setningin Je suis Charlie hefur verið notuð um allan heim til að sýna samstöðin eftir hryðjuverkin í París. AFP

Einkaleyfastofa Bandaríkjanna fer nú yfir tvær umsóknir um að skrá setninguna „Je suis Charlie“ sem vörumerki. Hún var notuð af fólki um allan heim til að sýna samstöðu í kjölfar árásarinnar á skoptímaritið Charlie Hebdo í París. Annar umsækjandinn vill nota vörumerkið á fatnað og borðbúnað meðal annars.

Annars vegar er það sjóður í Kaliforníu sem hefur óskað eftir að skrá setninguna sem vörumerki í „góðgerðarskyni“ eins og það er orðað í umsókninni, samkvæmt frétt The Washington Post. Hins vegar er það rómanskt-amerískt fyrirtæki sem vill nota setninguna á fjölda vara, þar á meðal klæðnað, skófatnað, farangur og borðbúnað.

Báðar umsóknirnar bárust skömmu eftir hryðjuverkaárásina 7. janúar og er enn verið að fara yfir þær. Miðað við þau fordæmi sem eru fyrir hendi er þó ólíklegt að stofnunin fallist á þær.

Frétt The Washington Post af tilraunum til að skrásetja „Je suis Charlie“ sem vörumerki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert