Aftakan „yfirgengileg og ófyrirgefanleg“

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, segir morð liðsmanna Íslamska ríkisins á japönskum gísli „yfirgengilegt og ófyrirgefanlegt“. Svo virðist sem gíslinn hafi verið hálshöggvinn. Krefst Abe þess að öðrum Japana sem samtökin halda í gíslingu verði sleppt án tafar.

Verktakinn Haruna Yakuwa var hálshöggvinn af liðsmönnum Íslamska ríkisins ef marka má myndband sem samtökin birtu í gær. Þau halda einnig blaðamanninum Kenji Goto í gíslingu. Japönsk yfirvöld eru enn að fara yfir myndbandið til að staðfesta að það sé ósvikið en Abe sagði að svo virtist sem svo væri.

„Slíkt hryðjuverk er yfirgengilegt og ófyrirgefanlegt. Ég fordæmi það kröftuglega og algerlega,“ sagði Abe um aftöku mannsins.

Íslamistarnir höfðu krafist 200 milljón dollara lausnargjalds fyrir gíslana og að íraskri konu sem dæmd var til dauða í Jórdaníu fyrir hryðjuverkaárás í Amman árið 2005 sem grandaði 60 manns yrði sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert