Alþjóðasamfélaginu er að mistakast

Angelina Jolie.
Angelina Jolie. AFP

Alþjóðasamfélaginu er að mistakast að vernda almenna borgara sem orðið hafa fyrir áhrifum af völdum stríðsátakanna í Írak og Sýrlandi. Þetta sagði Hollywood-stjarnan Angelina Jolie fyrr í dag en hún er stödd í Írak um þessar mundir.

Í stöðu Jolie sem velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna hefur hún heimsótt sýrlenska flóttamenn og Íraka sem hafa þurft að flýja heimili sín.

„Ég er í losti eftir hvað ég er búin að sjá í dag. Þetta er fimmta heimsóknin mín hingað til Íraks frá árinu 2007 og ástandið er það versta sem ég hef séð á þeim tíma,“ sagði Jolie við fréttamenn í dag. Hún heimsótti Írak síðast árið 2012, áður en Ríki íslams var stofnað og vígamenn tekið yfir stóran hluta landsvæðis í Írak og Sýrlandi.

Meira en tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín undanfarið ár og heldur sú tala áfram að hækka en um helmingur flóttamannanna hefur fundið sér skjól í Kúrdistan. 

Jolie segir að UNHCR, stofnun Sameinuðu þjóðanna, hafi aðeins fengið helming þess fjármagns sem stofnunin þurfti til að geta sinnt  málaflokkum í Írak og Sýrlandi og lýsti hún í dag yfir þungum áhyggjum yfir stöðu söfnunarinnar í dag en hún gengur of hægt að sögn Jolie. 

„Nú reynir á okkur sem alþjóðasamfélag, hingað til hafa tilraunir alþjóðasamfélagsins mistekist,“ sagði hún.

Fulltrúi UNHCR í Írak, Neil Wright, harmar stöðuna í Írak og Sýrlandi. Hann segir að styrkir frá alþjóðasamfélaginu séu ekki í neinu samhengi við það ástand sem skapast hefur í löndunum þar sem fleiri en þrettán milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Skv. upplýsingum frá UNHCR hafa fleiri en 3,8 milljónir Sýrlendinga flúið til nágrannalanda; Tyrklands, Líbanon, Jórdaníu, Íraks og Egyptalands.

EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert